Níu fyrirtæki með aðstöðu í Kringluturninum hafa kært rekstrarfélag Kringlunnar. Ástæðan er sú að þeim er gert að taka þátt í markaðskostnaði sem þau njóta ekki góðs af. Meðal annars Kringlukasti, Boltalandi og ýmsum auglýsingakostnaði.

Markaðskostnaður rekstrarfélagsins var 530 milljónir á fjórum árum.

Meðal kærenda eru fasteignasala, verkfræðistofa, ráðgjafarfyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki. En á heimasíðu Kringlunnar eru ekki einu sinni upplýsingar um fyrirtækin í Kringluturninum.

Samkvæmt Lúðvík Erni Steinarssyni, lögmanni fyrirtækjanna, hefur kærunefnd húsamála þegar fallist á sjónarmið þeirra en rekstrarfélagið ekki gert leiðréttingar.

Því fer málið fyrir héraðsdóm og verður tekið fyrir í desember.