Nara Walker, sem sakfelld var fyrir að bíta hluta úr tungu þáverandi eiginmanns síns, hóf afplánun sína í gær. Hlaut hún átján mánaða fangelsi fyrir, þar af fimmtán skilorðsbundna. Hópur stuðningsmanna hennar kom saman við fangelsið á Hólmsheiði í gær til að mótmæla fangelsun Nöru.

Héraðsdómur féllst ekki á að viðbrögð Nöru hefðu helgast af nauðvörn en Nara hefur ávallt haldið því fram að hún hafi verið að verjast grófu ofbeldi þáverandi eiginmanns síns. Í samtali við Fréttablaðið, stuttu áður en hún hélt inn í fangelsið sagði Nara tilfinningarnar blendnar.

„Ég er að fara í fangelsi fyrir að verja mig fyrir manni sem kerfisbundið beitti mig ofbeldi í fjölda ára. Ég fer í fangelsi en hann gengur laus.“