Fellibylur sem hlotið hefur viðurnefnið Nisarga nálgast hratt borgina Mumbai eftir að hafa stigmagnast á leið sinni yfir Arabíuhafið.

Annar eins fellibylur hefur ekki gengið á land í þessari fjölmennustu borg Indlands í áratugi.

Tugir þúsunda íbúa hafa verið fluttir upp á hærra land, þar á meðal 150 af nýlegum spítala sem settur var upp fyrir COVID-19 sjúklinga.

Tuttugu milljónir manna búa í þessari þéttbýlu fjármálamiðstöð landsins sem hefur þegar orðið illa fyrir barðinu á kórónaveirufaraldrinum.

Nisarga gekk á land um 100 kílómetra suður af Mumbai um klukkan hálf níu í morgun að íslenskum tíma.

Stjórnvöld hafa gefið út að fólk sem búi í ótryggum húsum nálægt ströndinni verði flutt í burtu og hefur strandgæslan komið yfir 100 sjómönnum í land.

Óveðrið skellur á innan við tveimur vikum eftir að fellibylurinn Amphan gekk á land við austurströnd Indlands. Þá létust minnst 96 í austurhluta Indlands og Bangladesh.