For­seti Banda­ríkjanna segir að yfir­völd séu til taks og á vettvangi þegar styttist í að felli­bylurinn Ian fari yfir Flórída. Felli­bylurinn er enn í flokki fjögur en Felli­bylja­stofnun Banda­ríkjanna gaf það út fyrir stuttu að auga hans, sem þau telja mjög hættu­legt, sé nærri ströndum Flórída og að þar megi búast við flóðum og miklum vindi. Búist er við því að felli­bylurinn gangi þar á land á næstu klukku­tímum. Vindhraði hans getur nálgast 250 kílómetra á klukkustund eða um 69 metrar á sekúndu.

„Við höfum sam­þykkt allar beiðnir frá Flórída um tíma­bundna að­stoð, neyðar­að­stoð og lang­tíma­að­stoð,“ sagði Biden í á­varpi rétt í þessu. Inni­falið í því er að senda hundruð starfs­manna FEMA, al­manna­varna Banda­ríkjanna á vett­vang auk þjóð­varð­liðsins. Þá hefur einnig verið sett upp björgunar­teymi.

Biden varaði þó einnig við því í á­varpi sínu að olíu- og gas­fyrir­tæki myndu nota Ian sem tæki­færi til að hækka verðin.

„Til gas- og olíu­bransans – ekki – og leyfið mér að endur­taka – ekki nota þetta sem af­sökun til að hækka verð á olíu eða til að rista banda­rískan al­menning að innan,“ sagði Biden og að olíu­verð hafi hingað til verið að lækka aftur og að stormurinn hafi hingað til að­eins lítil­lega haft á­hrif á fram­leiðslu og að það ætti ekki að af­saka hækkun. Hann sagðist ætla að kanna málið frekar ef að það verður af hækkun.

Biden greindi einnig frá því að FEMA hafi komið fyrir milljónum lítra af vatni, milljónum mál­tíða og hundruðum rafala í Flórída sem hægt verður að nálgast þegar hann hefur gengið yfir. Fram­kvæmda­stjóri FEMA, Deanne Criswell, sagði fyrr í dag að felli­bylnum myndu fylgja miklar hörmungar, ekki bara þar sem hann snertir fyrst land. Hún sagði miklar á­hyggjur af flóðum sem geta fylgt felli­bylnum og að flest and­lát við þessar að­stæður séu tengdar vatni.

„Við vitum að mjög mikið af fólki er farið, en enn eru margir enn á staðnum,“ sagði hún og að leitar­teymi verði til­búin ef þörf er á.

Ríkis­stjóri Flórída, Ron DeSantis, segir felli­bylinn sögu­legan og að hann muni skilja eftir sig ó­af­máan­legt mark á ríkið. „Biðjið fyrir fólki. Þetta er svaka, svaka stormur,“ sagði hann og að Flórída-búar myndu takast á við þennan storm eins og þá sem hafa fyrir komið.

Fellibylurinn gekk í gær yfir Kúbu þar sem ellefu milljónir voru rafmagnslausar í morgun en allt rafmagnskerfið hrundi þegar hann fór yfir. Tveir létust í storminum.

Samkvæmt nýjustu fréttum er rafmagn komið aftur á hluta eyjunnar.