Tillaga um skipun starfshóps til að skoða sameiningu heimaþjónustu og heimahjúkrunar var felld í bæjarráði Kópavogs í gær.

Meðal þess sem starfshópurinn átti að skoða samkvæmt tillögu Péturs Hrafns Sigurðssonar úr Samfylkingu voru möguleikar á bættri þjónustu við þá sem nýta heimaþjónustu og heimahjúkrun og aðstandendur þeirra.

„Undirrituð harmar að ekki sé meirihluti fyrir því að setja á fót starfshóp til að greina þjónustuþörf eldri borgara frá upphafi til enda,“ bókaði Bergljót Kristinsdóttir, flokkssystir Péturs, eftir að meirihluti bæjarráðs felldi tillöguna með vísan til minnisblaðs forstöðumanns upplýsingatæknideildar bæjarins.