Ákæruvaldið í Chicago hefur fellt niður allar ákærur á hendur Empire leikaranum Jussie Smollett fyrir að hafa sett á svið líkamsárás gegn sér en málið hefur vakið heimsathygli undanfarna mánuði. Guardian greinir frá.

Smollet sagðist hafa lent í líkamsárás tveggja manna er hann var á gangi um Chicago borg en fljótt fóru spjótin þó að beinast gegn leikaranum og grunaði lögreglan að hann hefði borgað mönnunum tveimur fyrir að ráðast á sig. Grunaði lögreglan að hann hefði gert það til að fá meiri athygli og mögulega til að fá launahækkun fyrir leik sinn í Empire. 

Smollet hafði sagt frá því að þeir hefðu hrópað hatursfull ummæli að sér fyrir kynhneigð sína og útlit. „Í dag voru allar ákærur á hendur Jussie Smollett felldar niður og sakaskýrsla hans hreinsuð af þessari sorglegu ásökunum. Tvær manneskjur sem hann veit ekki deili á réðust á hann þann 29. janúar síðastliðinn,“ segir lögfræðiteymi leikarans í tilkynningu. 

„Þetta mál sannar að við ættum aldrei að reyna að sanna málsatvik með almenningsálitinu. Það er rangt. Það er áminning að fórnarlamb, sem var í þessu tilviki Jussie, á rétt á virðingu. Niðurstaðan var hin eina rétta.“