Kynferðisbrotamál gegn starfsmanni frístundaheimilisins Hraunseli í Hafnarfirði, sem var sakaður um að hafa brotið á tveimur nemendum í fyrsta bekk við Hraunavallaskóla síðastliðinn maí, hefur nú verið fellt niður en þetta staðfestir verjandi mannsins, Unnsteinn Örn Elvarsson, í samtali við Vísi.

Maðurinn var leystur frá störfum á meðan rannsókn málsins stóð yfir en lögreglu barst tilkynning frá Barnaspítala Hringsins þann 19. maí um hugsanlegt kynferðisbrot mannsins gagnvart barni. Við rannsókn málsins kom í ljós að um tvö börn væri að ræða.

Hann var upprunalega úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald af Héraðsdómi Reykjaness þann 21. maí en Landsréttur felldi þann úrskurð úr gildi einum degi síðar. Í úrskurði Landsréttar kom fram að lögregla hefði tekið skýrslu af manninum og framkvæmt húsleit á heimili hans og því taldist það ekki nauðsynlegt að krefjast gæsluvarðhalds.

Unnsteinn segir í samtali við Vísi að kærufrestur í málinu væri liðinn en vildi að öðru leyti lítið tjá sig um málið. Hann sagði þó að málið hafi reynst skjólstæðingi hans erfitt en Unnsteinn sagði að ekkert hafi verið til í ásökunum gegn honum.