Ferðamálafrömuðurinn Jóhann Helgi Hlöðversson og hrafninn Dimma hafa að undanförnu slegið í gegn á samfélagsmiðlum. Óhætt er að fullyrða að Jóhann sé sannkallaður hrafnahvíslari, enda er Dimma ekki fyrsti hrafninn í hans eigu. Þegar Dimma fannst köld og hrakin sem ungi á Selfossi í júní var leitað til Jóhanns.

„Dýralæknar Suðurlands höfðu samband eftir að hún fannst á íþróttasvæðinu á Selfossi og spurðu hvort ég væri ekki til í að taka hana að mér,“ segir Jóhann. Hann birtir reglulega myndbönd á Facebook af Dimmu sem vekja mikla athygli, þar sem meðal annars má sjá hana að leik með hundi Jóhanns.

Jóhann er þúsundþjalasmiður og segir að hrafnadýrkunin sé tilkomin eftir að það kreppti að í efnahag fjölskyldunnar árið 2008. Hann stofnaði gistiheimili að Vatnsholti í Flóa ásamt eiginkonu sinni, Margréti Ormsdóttur, en Eyjafjallajökull setti strik í reikninginn.

„Við opnuðum 2010 og svo fór að gjósa um leið og við opnuðum og þá komu engir gestir inn. Þá varð maður að gjöra svo vel að hafa allar klær úti og finna sér einhverja vinnu,“ segir Jóhann. „Eitt af því var að dunda sér í þessu og ég hef fengið töluvert af verkefnum í kvikmyndum og auglýsingum og ýmsu. Ég hef til dæmis unnið fyrir Dalai Lama, Annie Leibowitz, í Vikings-þáttunum og í íslenskum sjónvarpsauglýsingum og fyrir fleiri aðila.“

Hann segir hrafna með gáfuðustu dýrum í heimi og segir þá veita einstakan félagsskap. Dimma er eini hrafn Jóhanns nú og í miklu uppáhaldi. Hún mun koma til með að leika í sjónvarpsauglýsingu í næstu viku, sem leynd hvílir yfir.

„Hún er alveg einstaklega ljúf. Þeir eru yfirleitt mjög ljúfir fyrsta árið og svo verða þeir svolítið sjálfstæðari og uppivöðslusamari og erfiðara að eiga við þá. En hún er ekki alveg orðin fleyg hjá mér. Ég held hún haldi að hún sé hundur og hundar eru ekkert mikið að fljúga. Hún samt flögrar aðeins og ef ég set hana á grein og henni fer að leiðast þá flýgur hún yfir á næstu.“

Ótrúleg myndbönd af Jóhanni og Dimmu má sjá hér að neðan.

Raven vs dog... black vs white

Posted by Jóhann Helgi Hlöðversson on Thursday, 30 July 2020

Dimma fékk hlutverk í alþjóðlegri auglýsingu fyrirtækis sem kvennþjóðin heldur ekki vatni yfir ...enda kostar ein vara árslaun alþýðu manns ... tökur fara fram hinumegin á landinu eftir viku og ekki seinna vænna en byrja æfingar strax

Posted by Jóhann Helgi Hlöðversson on Sunday, 2 August 2020
Jóhann Helgi Hlöðversson, ferðamálafrömuður