Karlmaður féll niður einn og hálfan metra ofan í bílagryfju á smursstöð á höfuðborgarsvæðinu og rotaðist. Atvikið gerðist í byrjun desember árið 2017 en Héraðdómur viðurkenndi í gær bótaskyldu Vátryggingafélags Íslands, úr frjálsri ábyrgðartryggingu smursstöðvarinnar, vegna líkamstjóns sem maðurinn hlaut af slysinu.

Vátryggingafélagi er gert að greiða 1,1 milljón króna í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.Héraðsdómur Reykjavíkur birti dóminn í dag.

Enginn varð vitni að slysinu

Maðurinn fór á smursstöðina til að láta skipta um ljósaperu í framljósi bifreiðarinnar. Starfsmenn smurstöðvarinnar hafi ekið bílnum inn á verkstæðið og komið henni fyrir yfir einni af þremur bílgryfjum á verkstæðinu. Þá hafi starfsmaður boðið manninum að athuga málið með honum inni á verkstæðinu. Starfsmaður hafi síðar vikið sér frá til að ná í topplyklasett og féll þá maðurinn í gryfjuna. Engin vitni voru til frásagnar um nánari atvik í aðdraganda slyssins.

„Fram kemur að einkenni sem stefnandi glími við frá fyrri heilaskaða hafi greinilega versnað við slysið, einkum svimi og óstöðugleiki, og bak- og höfuðverkir hafi versnað, svo og svefnheilsa.“

Í skýrslu lögreglu er greint frá því að tilkynning hafi borist um að maður hefði fallið niður einn og hálfan metra og rotast. Þegar lögregla kom á vettvang hafi maðurinn verið kominn til meðvitundar og setið rólegur í anddyri verkstæðisins. Hann hafi verið með blóðugan skurð á höfði, verið illa áttaður og ekki munað hvað hefði gerst.

Ekkert áhættumat gert með tilliti til öryggis

Lýsing á verkstæðinu hafi verið fullnægjandi að því er fram kemur í greingerð dómsins. Gólf verkstæðisins voru grænmáluð með greinilegum gulum varúðarlínum í kringum gryfjurnar í gólfinu og gulmáluðum handriðum við langenda þeirra. Í lofti verkstæðisins hafi hangið áberandi skilti merkt „HÆTTA, vinnusvæði“.

Hins vegar kemur fram í úttekt Vinnueftirlitsins að fyrirtækið hafi ekki gert sérstakt áhættumat með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfinu ásamt áætlun um heilsuvernd og forvarnir.

Viðskiptavinir sem hafi aðgengi að vinnurými geti valdið slysum eða óhöppum bæði á starfsmönnum og sjálfum sér.

Lögreglan ræddi við starfsmann verkstæðisins sagðist hafa verið að vinna í gryfjunni við hliðina og heyrt dynk, Starfsmaðurinn hafi þá farið upp úr gryfjunni og séð hvar maðurinn lá í næstu gryfju. Maðurinn hafi verið meðvitundarlaus og gefið frá sér hljóð eins og hann væri að hrjóta.

Maðurinn sem féll segist muna eftir sér þar sem hann hafi verið að borga yfir bílnum en að öðru leyti muni hann ekki nánar eftir tildrögum slyssins. Hann segist ekki hafa verið varaður við hættunni af því að geta fallið ofan í gryfjuna.

Heilaskaði versnaði við slysið

Hann var síðar fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á Landspítalanum. Í vottorði heimilislæknis stendur:

„Rannsókn við komu á Landspítalann hafi leitt í ljós að stefnandi hefði fengið litla heilablæðingu sem talin væri vera „subarachnoidal“ nálægt svæði í heilanum þar sem hann hefði áður orðið fyrir skaða, auk þess sem hann hefði tognaði á hálsi og þumalfingursbrotnað. Er afleiðingum áverkanna lýst í vottorðinu,“ segir í greinargerð dómsins.

„Fram kemur að einkenni sem stefnandi glími við frá fyrri heilaskaða hafi greinilega versnað við slysið, einkum svimi og óstöðugleiki, og bak- og höfuðverkir hafi versnað, svo og svefnheilsa.“