Maður sem féll niður tíu þrepa stiga eftir að hafa hrasað um állista við vinnu sína á gistiheimili fær dæmdar bætur frá Sjóvá eftir að Landsréttur snéri við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.

Slysið átti sér stað árið 2019 er hann rak tánna í listann og hrasaði í kjölfarið niður stigann.

Hlaut maðurinn af því nokkur meiðsli en hann bar fyrir sig aðra höndina við fallið og lýsti miklum verkjum við læknisskoðun og vildi ekki hreyfa hægri úlnlið.

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að slysið hafi ekki verið rannsakað af Vinnueftirlitinu þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt þegar það átti sér stað.

Þá hafi állistinn verið fjarlægður fljótlega eftir slysið og ótvírætt sé að rannsókn eftirlitsins áður en listinn var fjarlægður hefði verið til þess fallinn að varpa ljósi á aðstæður og ástæður slyssins.

Landsréttur telur vinnuveitandann hafa sýnt vanrækslu þar sem listinn hafi verið laus og staðið upp úr gólfinu.

Vinnuveitandinn, sem tryggður er hjá Sjóvá, var því dæmdur ábyrgur enda hvíli meginábyrgð á öruggu vinnuumhverfi á honum.

Ekki er greint frá upphæð bóta en vinnuveitandanum er einnig gert að greiða tvær milljónir króna í málskostnað vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Landsrétti sem rennur í ríkissjóð.