Felix Bergsson er kominn í stýrihóp Eurovision-keppninnar en hópurinn tekur ýmsar ákvarðanir varðandi keppnina og aðstoðar við að gera hana sem glæsilegasta. Koma henni frá Hollandi til Ítalíu með bravúr.Hópurinn hittist í fyrsta sinn í Genf í vikunni og sagði Simona Martorelli, fararstjóri ítalska hópsins og meðlimur í stýrihópnum, í samtali við heimasíðu Eurovision, að eftirvæntingin væri mikil fyrir komu keppninnar.

Fyrsta verk væri að finna borg sem gæti haldið keppnina.Felix fór í örlitla kosningabaráttu en þrír fararstjórar eru kosnir í hópinn og er kjörtímabilið tvö ár. Fáir ef einhverjir hafa puttann á Eurovision-púlsinum betur en Felix hér á landi og segir hann að það sé gaman að vera kominn í áhrifastöðu innan keppninnar. Hann fékk mikinn stuðning frá RÚV til að komast í hópinn sem hann er þakklátur fyrir.

„Það er gaman að vera með í því að þróa keppnina áfram næstu tvö árin hið minnsta og það er ýmislegt á bak við tjöldin og í skipulagi þar sem þarf að taka til hendinni. Mér finnst gaman að koma að þessu enda er bjart yfir Eurovision.Ég held að allir séu sammála um að síðasta keppni í Rotterdam hafi verið frábær. Samfélagsmiðlanotkunin var nánast gígantísk og það er greinilegt að listamenn eins og Daði og í Mánaskin höfðuðu til unga fólksins, 16–23 ára,“ segir hann.

Felix hefur nokkrar hugmyndir um hvernig keppnin geti orðið enn betri en heldur spilunum þétt að sér þegar hann er spurður um hverjar þær séu. „Það kemur í ljós en fyrst og fremst er þetta samstarfsverkefni milli allra í hópnum. Það er gaman að sitja við borðið og koma að þessu. Allar breytingar sem á að gera koma inn á okkar borð og þær eru ræddar og svo ákvörðun tekin.

Nú er verkefnið að styðja Ítalíu til að halda flotta keppni. Þeir eru með fjármagnið en þeir þurfa stuðning til að halda flotta keppni. Það þarf að tryggja að fólk fari ekki af sporinu,“ segir Felix.Martin Österdahl, framkvæmdastjóri keppninnar, sagði við heimasíðu Eurovision að það væri alltaf stór stund þegar keppnin væri afhent nýjum aðilum.

„Við upplifðum þrjú frábær kvöld í Rotterdam og nú tekur RAI við keflinu og við erum strax byrjuð að hlakka til að sjá hvað þau hafa í pokahorninu,“ sagði hann og hóf niðurtalninguna til Ítalíu.