Fjölskylduráð Hafnarfjarðarbæjar stefnir á að hafa félagsstarf fyrir eldri borgara í allt sumar ásamt dagvistun fyrir fatlað fólk.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra hefur sent bréf á öll sveitarfélög að hvetja þau til að efla enn frekar félagsstarf fullorðinna í sumar.

Ljóst er að eldri borgarar og öryrkjar hafa upplifað mikla félagslega einangrun vegna kórónaveirufaraldursins. Þórunn Svein­björns­dóttir, for­maður Lands­sam­bands eldri borgara, ræddi um einmanaleikann þegar hún var gestur á upplýsingafundi almannavarna í apríl

„Það sem við finnum mest fyrir er ein­mana­leikinn. Hann er að verða hættu­legur og djúp­stæður og það kallar á að­gerðir,“ sagði Þórunn.

Möguleiki á félagsstarfi í allt sumar

Hafnarfjarðarbær tók fyrir tillögu ráðherra síðastliðinn föstudag og er þegar verið að huga að útfærslunni.

„Það er til alvarlegrar skoðunar að hafa starfsemi fyrir eldri borgara í sumar. Einnig erum við að skoða dagvistun fyrir fatlað fólk. Ekki er enn komin endanleg ákvörðun en til stendur að klára þetta á næsta fundi. Við erum nokkuð bjartsýn að þetta takist allt saman; að við getum haft töluvert opið í sumar, jafnvel alveg opið,“ segir Valdimar Víðisson, formaður fjölskylduráðs, í samtali við Fréttablaðið.

Ráðherra segir í bréfi til sveitarfélaga að mikilvægt sé að leggja áherslu á frístundaiðkun, geðrækt, hreyfingu og forvarnir með það að markmiði að auka lífsgæði og heilbrigði, fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun. Heilsuefling íbúa er nú hafin á landsvísu; sundlaugar opnuðu í síðustu viku og í dag opnuðu líkamsræktarstöðvar.

„Þetta eru þeir hópar sem fóru fyrst í lokun og opna síðast. Það er klárlega þörf á því að bregðast við með því að reyna að hafa fulla þjónustu í sumar. Það er alla vega nauðsynlegt að hafa þjónustu með einhverjum hætti. Þetta fer núna hægt af stað í dag; líkamsræktarstöðvar eru að opna og fólk er að komast í hægt og bítandi í venjulega rútínu.“

Valdimar Víðisson, formaður fjölskylduráðs í Hafnarfirði.