Tólf og hálft prósent félagsráðgjafa sem starfa á Landspítalanum hafa aðeins starfað við spítalann í eitt ár eða skemur.Þetta kemur fram í svari Nönnu Briem, forstöðumanns geðþjónustu Landspítalans, við fyrirspurn Fréttablaðsins. 27,1 prósent starfandi félagsráðgjafa við spítalann hafa starfað þar í 2 til 3 ár og tæplega 17 prósent í 4 til 9 ár.

Þá hafa um 44 prósent starfað á spítalanum í 10 ár eða lengur. Alls starfa 50 félagsráðgjafar á spítalanum í 43 stöðugildum.

Nanna segir starfsmannaveltu á félagsráðgjöfum hafa minnkað umtalsvert undanfarna 12 mánuði og hún sé nú um 14,5 prósent, sem hún segir lægra en á öðrum deildum spítalans en svipað og hjá spítalanum í heild.

Nú eru lausar fjórar stöður félagsráðgjafa við spítalann og segir Nanna að samkvæmt niðurstöðum mats sem lagt var fyrir starfsfólk spítalans hafi starfsánægja meðal stéttarinnar aukist um 0,34 stig á milli ára, „sem þýðir að starfsánægja hópsins sé nokkuð góð.“

Byrjunarlaun félagsráðgjafa við Landspítalann eru rúmar 520 þúsund krónur en Nanna segir að sá þáttur sem mældist áberandi lægstur í umræddu mati sé laun, „og endurspeglar það viðhorf hópsins að hann er óánægður með launin á spítalanum,“ segir hún.

Nanna segir að með þjálfun og starfsreynslu sem félagsráðgjafar fái á Landspítalanum sé auðvelt fyrir þá að fá önnur störf. „Og þá er spítalinn ekki samkeppnishæfur um sérhæfða vinnuaflið,“ segir hún.