Stéttarfélagið Efling kveðst hafa upplýsingar um tilfelli þar sem atvinnurekendur á félagssvæði Eflingar hafi haft óeðlileg afskipti af þátttöku félagsmanna í atkvæðagreiðslum um verkfallsboðun. Um er að ræða tilfelli bæði í hótelrekstri og hjá hópbifreiðafyrirtækjum.

Samkvæmt tilkynningu frá Eflingu hefur Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sent almennt erindi til hótelrekenda og forsvarsmanna hópbifreiðafyrirtækja vegna þessa. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hefur haft samband við framkvæmdastjóra nokkurra fyrirtækja í hótel- og hópbifreiðageiranum vegna kvartana frá félagsmönnum og minnt á réttindi þeirra.

„Hér er því miður um ákveðið mynstur að ræða,“ segir Viðar. „Við söfnum upplýsingum um þessi tilvik og munum svo vega og meta til hvaða aðgerða verður gripið.“

Samkvæmt kvörtunum félagsmanna eiga yfirmenn að hafa í einhverjum tilfellum boðað til funda með starfsmönnum og haft uppi hótanir um að verkfallsaðgerðir og jafnvel kosningaþátttaka geti haft skaðlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir starfsmennina. Slíkar yfirlýsingar brjóta gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur að mati Eflingar.

Það er sorglegt að atvinnurekendur skuli standa í vegi fyrir því að félagsmenn Eflingar geti tekið afstöðu í löglega boðaðri atkvæðagreiðslu,“ segir Sólveig Anna. „Efling tekur allar tilraunir til að beita félagsmenn okkar óeðlilegum þrýstingi alvarlega.“