Félagsmönnum Blaðamannafélags Íslands gefst tækifæri á að funda með ríkislögreglustjóra næstkomandi fimmtudag. Viðfangsefni fundarins verður samskipti lögreglu og blaðamanna.
Tilefni fundarins eru hindrunartilburðir gagnvart blaðamönnum sem áttu sér stað á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku þegar flóðjósum var beint að blaðamönnum sem ætluðu sér að fylgjast með aðgerðum lögreglu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Helgi Valberg Jensson yfirlögfræðingur ríkislögreglustjóra, og Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra verða til svara, og þá mun Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður BÍ stýrir fundinum.
„Farið var fram á frekari upplýsingar um atburðinn og óskað var eftir svörum við tilteknum spurningum. Ekki hafa fengist svör við þeim en í framhaldi af bréfinu frá BÍ þáði Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri boð Blaðamannafélagsins um að koma á fund með félagsmönnum til að ræða samskipti lögreglu og blaðamanna. Bent hefur verið á að þetta atvik sé ekki einsdæmi um aðgerðir sem tengjast störfum lögreglu þar sem blaðamenn verða fyrir hindrunum við störf.“ segir í tilkynningu BÍ um fundinn.