Í framhaldsskólum taka á morgun gildi breytingar líkt og á öðrum skólastigum. Þá verður tveggja metra reglan að eins metra reglu og fjöldatakmörk fyrir nemendur verða 150.
„Við í SÍF við fögnum þessum tilslökunum og ég held að þetta sé mikilvægur þáttur í andlegri líðan nemenda, og þá sérstaklega nýnema, að þau fái að umgangast aðra nemendur. Framhaldsskóli getur einn og sér verið mikið félagslegt sjokk. Þetta er þróunartími í félagslífi fólks og persónulegum lífsskoðunum og allur pakkinn,“ segir Júlíus Viggó Ólafsson, forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema, í samtali við Fréttablaðið um tilslakanir í framhaldsskólum sem voru kynntar í dag.
Við fögnum þessum tilslökunum en ítrekum mikilvægi þess að haldið sé í sveigjanleika
Mikilvægt að muna að ekki allir geta mætt
Júlíus segir að þau hafi fundað með menntamálaráðherra oft frá því í haust og fagni þeirri línu sem hún hefur tekið í málinu en ítrekar þó mikilvægi þess að tekið sé tillit til nemenda sem geta ekki mætt í skólann vegna þess að þau eru í áhættuhópi eða búa með einhverjum sem er í áhættuhópi.
„Þetta er alvöru hópur sem þarf að taka mark á og við brýnum mikilvægi þess að það sé hlustað á hann,“ segir Júlíus Viggó.
Hann segir að þau þurfi sveigjanleika ef þau treysta sér ekki til að mæta og eins að nemendur sem finni fyrir einkennum viti að þau geti verið heima og sinnt skólanum þar á meðan þau bíði eftir niðurstöðum skimunar.
„Við fögnum þessum tilslökunum en ítrekum mikilvægi þess að haldið sé í sveigjanleika fyrir þessa hópa,“ segir Júlíus Viggó.
Mikill munur á einum og tveimur metrum
Ráðherra kynnti í dag að samkvæmt nýjum reglum verða viðburðir innan skólanna heimilaðir. Viðburðirnir eiga að vera sitjandi og í samræmi við aðrar reglur um samkomutakmarkanir.
Spurður um mikilvægi þess segir Júlíus Viggó að það skapist alls kyns möguleikar með þessu.
„Það virkar kannski oft ekki mikið en munurinn á einum eða tveim metrum er rosalega mikill þegar þú ert að tala um þrívíð rými. Þetta eykur möguleikann á því að nemendafélögin geti haldið einhvers konar viðburði á sal sem gæti nálgast því að vera árshátíð eða gala þótt það verði auðvitað aldrei neitt í líkingu við það sem venjulega hefur verið. Ég held að þetta sé heilbrigt fyrir félagslífið og þá sérstaklega nýnemana sem hafa ekki fengið að tengjast samnemendum sínum eins og aðrir framhaldsskólanemar. Þau fá vonandi tækifæri núna til að taka aðeins meiri þátt og kynnast meira fólki,“ segir Júlíus Viggó.
Hann segir að í stjórn SÍF séu allir sammála um mikilvægi félagslífsins fyrir andlegt heilbrigði nemenda og að rannsóknir sem hafi komið út um líðan nemenda í og eftir COVID-19 fjalli um það líka.
„Félagslega einangrunin hefur haft mjög mikil áhrif á nemendur,“ segir Júlíus Viggó.
Hann segir að auðvelt sé að hugsa um það sem „einhvers konar væl“ að þau fái ekki að halda böll í framhaldsskólunum en að það megi ekki gleyma því að þetta sé stór hluti af því að vera í framhaldsskóla. Þau skilji vel og viti að viðburðirnir séu aldrei að fara að vera í líkingu við það sem áður var en að það sé mjög mikilvægt að eitthvað sé gert fyrir félagslífið.
„Þetta er gríðarlega mikilvægt þáttur í vexti fólks sem einstaklingar,“ segir hann að lokum.