Félagsdómur hefur fellt dóm í máli Blaðamannafélagsins gegn Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd RÚV, þar sem BÍ krafðist þess að um kjör tveggja dagskrárgerðarmanna á RÚV, sem eru félagar í BÍ, væri farið eftir kjarasamningi BÍ við Samtök atvinnulífsins.
Málið má rekja aftur til ársins 2019 en leituðu dagskrárgerðarmennirnir sem í hlut eiga liðsinnis BÍ vegna þess að vinnuveitandi þeirra stóð fast á að samningur RÚV við Fræðagarð skyldi gilda um kjör þeirra, en ekki samningur BÍ við SA.
Blaðamannafélagið kærði málið til Félagsdóm og dómsorð var kveðið upp í gær, 29. nóvember.
„Viðurkennt er að stefnandi, Blaðamannafélag Íslands, fari með samningsaðild fyrir [dagskrárgerðarmann A] frá og með 1. júlí 2019 og [dagskrárgerðarmann B] frá og með 1. september 2019 við gerð kjarasamninga vegna starfa þeirra sem dagskrárgerðarfólk hjá Ríkisútvarpinu ohf.,2 segir í dómsorðinu.
Samtök atvinnulífsins var sýknað af öllum kröfum stefnanda í málinu og málskostnaður milli aðila fellur niður.
„Með þessum úrskurði hefur Félagsdómur tekið af allan vafa um að BÍ fari með kjarasamningsumboð fyrir það dagskrárgerðarfólk á RÚV sem á aðild að BÍ,“ segir í frétt á heimasíðu BÍ.
„Það er þó ekki þar með sagt að allt dagskrárgerðarfólk á RÚV geti að óbreyttu gert kröfu um að kjarasamningar BÍ gildi um þeirra störf. Kröfu BÍ um að kjarasamningar félagsins skyldu gilda afturvirkt til tiltekinna dagsetninga fyrir dagskrárgerðarmennina tvo var hafnað af dómnum,“ segir einnig.