Rauði krossinn á Íslandi, Landssamtök Þroskahjálpar og Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, fordæma brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem hafa þegar fengið stöðu sína viðurkennda í Grikklandi.
Þá hefur Solaris boðað mótmæli á Austurvelli klukkan 17.15, síðar í dag.
Rauði krossinn hefur ítrekað gagnrýnt brottvísanir til Grikklands og telur að þær skapi fólki hættu sem íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á.
Þroskahjálp óskar eftir neyðarfundi með ráðherra mannréttindamála, Katrínu Jakobsdóttur, ráðherra málefna fatlaðs fólks, Guðmundi Inga Guðbrandssyni og ráðherra útlendingamála, Jóni Gunnarssyni. „Samtökin telja augljóst að alvarleg mannréttindabrot hafi verið framin og tefjast skýringa tafarlaust.“
„Stjórn Solaris fordæmir harðlega brot ríkisstjórnar Íslands á alþjóðlegum skuldbindingum sem birtast meðal annars í brottvísun Hussein og fjölskyldu, þar sem Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er brotinn sem og Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttafólks og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga,“ segir í yfirlýsingu Solaris.
Brottvísun fatlaðs einstaklings brjóti gegn samningum
Rauði krossinn bendir á á að Ísland er aðili að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt þeim samningum skulu aðildarríki gera allar ráðstafanir til að vernda fólk, þar á meðal fatlaða einstaklinga, fyrir pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.
Þroskahjálp minnist einnig á Samning Sameinuðu þjóðanna. „Í samningnum er einnig fjallað um aðgengi, aðgang að réttinum, viðeigandi aðlögun og mikilvægi þess að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks til þess að tryggja jafnrétti í reynd. Öll þessi ákvæði telja Landssamtökin Þroskahjálp að hafi verið brotin í þeirri atburðarás sem hófst síðdegis í gær.“
Þroskahjálp hefur fylgst með máli viðkomandi síðustu átján mánuði og tekið þátt í að vekja athygli á sérstaklega viðkvæmri stöðu hans. Þroskahjálp telur ekki hafa verið tekið mið af fötlun við mat umsóknar um alþjóðlega vernd, en slíkri umsókn var synjað bæði hjá Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála.
„Jafnframt héldu þau því fram að mannsæmandi aðstæður væru tryggðar í Grikklandi, sem er í hrópandi mótsögn við þær upplýsingar sem Þroskahjálp hefur aflað hjá systursamtökum sínum í Grikklandi sem segja stöðu fatlaðs fólks fullkomlega óviðunandi,“ segir í yfirlýsingu Þroskahjálpar.
Tvær vikur í að mál Hussein verði tekið fyrir
Í fyrsta lagi eru tvær vikur þangað til að mál Hussein verður tekið fyrir hjá íslenskum dómstólum „og augljóst að hann getur ekki komið fyrir dóm á Íslandi til að‘ tala máli sínu,“ segir í yfirlýsingu Þroskahjálpar.
Staðfestar heimildir Þroskahjálpar herma að hvorki lögmaður mannsins né réttargæslumaður hafi fengið upplýsingar um stöðu mála frá yfirvöldum, en skylt er að upplýsa þeim um stöðu máls.
„Þegar þær upplýsingar bárust eftir öðrum leiðum var bæði lögmanni og réttindagæslumanni meinað að hitta skjólstæðing sinn og veita honum aðstoð. Krafan um viðeigandi aðlögun og stuðning var því alls ekki uppfyllt.“
Þá hafi maðurinn verið sendur úr landi án nauðsynlegra lyfja en í yfirlýsingunni segir að með þessu sé heilsu mannsins stefnt í voða.
Ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna um verndun friðhelgi einstaklingsins þegar maðurinn var fjarlægður með líkamlegu valdi úr hjólastólnum. „Í því felst valdbeiting og ofbeldi sem er með öllu óásættanlegt.“
Aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu mjög slæmar
„Líkt og Rauði krossinn hefur ítrekað bent á ber fjölda heimilda saman um að aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu heilt yfir mjög slæmar. Umsækjendur, sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi og seinna leitað hingað til lands og óskað eftir alþjóðlegri vernd, hafa jafnframt undantekningarlaust greint frá óviðunandi aðstæðum í Grikklandi,“ segir í yfirlýsingu Rauða krossins.
Rauði krossinn hvetur ríkisstjórnina til þess að endurskoða þá stefnu að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa stöðu sína viðurkennda í Grikklandi, aftur þangað. „Ástandið í Grikklandi hefur um nokkurt skeið verið óboðlegt fyrir flóttafólk en fólk á flótta á að njóta mannréttinda á sama hátt og annað fólk.“