Félag fornleifafræðinga segist hafa verið hunsað af Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, vegna athugasemda þeirra varðandi skipan í embætti þjóðminjavarðar.

Stjórn félagsins segir bréf og tölvupósta hafa verið hunsaða og símtölum til aðstoðarfólks ráðherra hafi ekki verið svarað.

Skipan Lilju Daggar í embætti þjóðminjavarðar hefur verið harðlega gagnrýnd úr mörgum áttum.

Félag fornleifafræðinga sendi Lilju Dögg bréf síðastliðin laugardag þar sem skipunin var sögð óvönduð, ógegnsæ og metnaðarlaus en líkt og áður hefur verið greint frá var starfið ekki auglýst.

Fornleifafræðingar segja skipanina sýna átakanlegan skort á skilningi á hlutverki Þjóðminjasafns og hlutverki ráðherra við skipun í embætti.

„Á þetta að þykja eðlileg skipan innan þessara ríkisstjórnar? Þetta er galið, fúsk af verstu gerð og svona á ekki að þykja eðlilegt í íslensku samfélagi,“ spyr stjórn félagsins sig í nýrri yfirlýsingu.

Félagið krefst svara frá Lilju Dögg og til vara óskar það eftir fund með öllum fagfélögum og nýjum þjóðminjaverði.

„Hægt væri að ræða stefnu safnsins þar og stöðu menningar í íslensku samfélagi. Málaflokkurinn menning er veikur og að það þykir í lagi að skipa embætti svona sýnir algjört virðingarleysi fyrir fagfólk í landinu,“ segir að lokum í yfirlýsingu félagsins.