Afstaða, félag fanga á Íslandi, harmar fyrirhugaða lokun fangelsisins á Akureyri og segir að litla fangelsið sé líklega árangursríkasta tækið til að draga úr ítrekun afbrota.

Sé það markmið stjórnvalda að nýta betur fjármuni í fangelsiskerfinu sé nær að draga úr afbrotum og minnka samfélagslegan kostnað þeirra, að sögn félagsins.

Það sé ekki gert með því að loka einingum sem vinni betur að því markmiði en fangelsin á Litla-Hrauni og Hólmsheiði.

Kallar eftir endurskoðun

Akureyringurinn Logi Einarsson og formaður Samfylkingarinnar segir fyrirhugaða lokun fangelsisins „hörmuleg tíðindi“ og vonast til að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Fangelsið á Akur­eyri er minnsta rekstrar­eining Fangelsis­mála­stofnunar en þar eru vistaðir 8 til 10 fangar að jafnaði. Tilkynnt var um fyrirhugaða lokun þess í dag og vísað til þess að kostnaður við hvert fanga­pláss á Litla-Hrauni og á Hólms­heiði sé lægri.

Segja Litla-Hraun og Hólmsheiði vera mistök

„Afstaða telur að bygging Litla-Hrauns, fangelsisins með útsýnisturninum, hafi verið mistök. Eina ástæða þeirrar byggingar hafi verið að skapa störf í heimabyggð þáverandi dómsmálaráðherra,“ skrifar Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, í grein sem birtist á vef Fréttablaðsins.

Sömuleiðis hafi mistök verið gerð með byggingu fangelsisins á Hólmsheiði.

„Hólmsheiðin er í anda Ameríku, lokuð og leiðinleg. Þar gerist ekkert annað en að menn og konur stara á veggi. Fangar sem koma þaðan út hafa ekki hlotið neina endurhæfingu og þess vegna er líklegra að þeir séu sendir aftur á Hólmsheiði. Afstaða telur að núverandi fangelsiskerfi og viðhorfið í kerfinu framkalli nýja glæpi. Fangelsið á Akureyri er helsta viðspyrnan gegn því.“

Guðmundur segir að fangar sem hafi orðið fyrir neikvæðum áhrifum í öðrum fangelsum hafa verið fluttir til Akureyrar þar sem þeir hafi náð árangri í lífinu.

„Þannig er litla fangelsið líklega árangursríkasta tækið í að draga úr ítrekun afbrota. Starfsfólk fangelsisins er til fyrirmyndar og vinnur í nálægð við fanga á mannlegum nótum.“

Ákvörðunin ekki tekin á faglegum grunni

Logi Einarsson tekur í svipaðan streng í færslu á Facebook-síðu sinni.

„Mér skilst að fangelsið sé til fyrirmyndar og starfsfólk hafi á sér sérstaklega gott orð.“

Hann telur að það gæti reynst erfitt fyrir það að flytja suður með fjölskyldur sínar en öllum fimm fastráðnum starfsmönnum verður boðið starf í öðrum fangelsum.

„Nú skilst mér að ákvörðunin sé fyrst og fremst rekstrarlegs eðlis en ekki faglegs. Ef peningaleg sjónarmið fá ævinlega að ráða er sjálfsagt hægt að reikna út að hagkvæmt sé að skella í lás víða um land og reka eina stóra sjoppu á suðvesturhorninu. Það sparar kannski ýmsan aurinn en landið okkar verður þeim mun fátæklegra.“