Póst- og fjarskiptastofnun, PFS, hefur birt ákvörðun þar sem fram kemur að ákveðið hafi verið að framlag til handa Íslandspósti, ÍSP, vegna alþjónustu ársins 2020 verði 509 milljónir króna.

Félag atvinnurekenda, FA, telur að þessi ákvörðun fari á skjön við lög þar sem hún sé ekki í samræmi við 3. málsgrein 17. greinar laga um póstþjónustu, póstlaga, þar sem kveðið er á um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði.

FA telur pakkagjaldskrá Póstsins, sem tók gildi í ársbyrjun 2020, brjóta gegn þessu ákvæði.

„Við höfum áður bent á það að stjórnvöld geti ekki látið það viðgangast að ríkisfyrirtækið undirverðleggi pakkaflutninga og grafi þannig undan rekstri keppinauta um allt land.

Þessi ákvörðun PFS skekkir samkeppnisstöðuna og verður til þess að lítil og meðalstór einkafyrirtæki sem reka vörudreifingarþjónustu á milli landshluta og póstþjónustu í byggðarlögum á landsbyggðinni verða af gríðarlegum tekjum.

.Íslandspóstur fær 509 milljóna framlag í ákvörðun PFS.

Með þessari ákvörðun eru skattgreiðendur enn fremur að greiða taprekstur ÍSP, sem er að sjálfsögðu ekki forsvaranlegt,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í samtali við Fréttablaðið um ákvörðun PFS.

„Inni í þeirri tölu sem PFS ákveður að veita ÍPS eru meðal annars 126 milljónir króna vegna taps fyrirtækisins sökum undirverðlagningar á pakkagjaldskrá ÍSP, sem hefur verið í gildi frá ársbyrjun 2020 og 181 milljón króna vegna þjónustu á markaðssvæðum sem talin eru óvirk þar sem engu að síður ríkir samkeppni,“ segir Ólafur enn fremur.

„Við teljum þessa ákvörðun um 307 milljóna króna niðurgreiðslu skattgreiðenda á undirverðlagningu þjónustu ÍSP með miklum ólíkindum. Stofnunin sem á að hafa eftirlit með póstmarkaðnum fellst á að undirverðlagning, sem bitnar hart á vörudreifingarfyrirtækjum um allt land, sé fjármögnuð úr sjóðum almennings.

Ef þessi ákvörðun PFS stendur er stofnunin búin að skuldbinda ríkið til að greiða milljarða króna á komandi árum. Það getur ekki verið að samgönguráðherra eða Alþingi ætli að láta þetta viðgangast. Stjórnvöld verða einfaldlega að taka í taumana,“ segir hann.

Framkvæmdastjórinn segir að í ákvörðun PFS komi fram væn pilla á umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þar segi að nefndin hafi ekki gætt að því að með umræddri breytingu væri hún að auka greiðslur úr ríkissjóði vegna alþjónustu, sem ekki var gert ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisins.

Þá virðist engin greining hafa farið fram af hálfu Alþingis um mögulegar fjárhagslegar afleiðingar lagabreytingarinnar fyrir þann aðila sem skylt væri að starfa undir kvöðinni um sama verð fyrir alþjónustu um allt land.