Félag atvinnurekenda hyggst kæra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til kærunefndar útboðsmála vegna kaupa stofnunarinnar á hraðprófum til að skima fyrir kórónuveirunni.

Félagið segir Heilsugæsluna hafa keypti hraðpróf fyrir hundruð milljóna króna án þess að bjóða kaupin út í samræmi við lög um opinber innkaup.

Engin innkaup voru skráð í kerfinu þrátt fyrir að mörgu þúsund manns hefðu þegar mætt í hraðpróf.
Fréttablaðið/Eyþór

Landspítalinn mælti með tveimur framleiðendum

Þegar fjölmennir viðburðir voru gerðir leyfilegir með hraðprófum í fyrra sendi Heilsugæslan út boð til fyrirtækja um að taka þátt í rafrænu gagnvirku innkaupakerfi vegna hraðprófa.

Níu fyrirtæki fengu staðfestingu þess að þau hefðu verið valin til þátttöku í innkaupakerfinu en í janúar birtust fréttir um að Heilsugæslan hefði endað á að velja hraðpróf frá tveimur framleiðendum sem Landspítalinn hefði mælt sérstaklega með. Ríkiskaup hafa staðfest hraðprófin hafi ekki verið keypt inni í hinu gagnvirka innkaupakerfi.

„Við komum ekki auga á neitt neyðarástand í kringum þessi innkaup, sem leiði af sér að Heilsugæslan sé hafin yfir lögin.“

Sendi ítrekun í febrúar

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að félagið hafi sent fyrirspurnir á Heilsugæsluna vegna málsins þann 21. janúar en ekki fengið nein svör. Félagið sendi ítrekun 3. febrúar og bað um svar fyrir daginn í dag, annars yrði málið kært til kærunefndar útboðsmála. Ekkert svar hefur borist og hefur því félagið ákveðið að kæra.

Heilsugæslan telur sig ekki hafa farið á svig við lög vegna neyðarsjónarmiða sem geta veitt stofnuninni undanþágu frá hinu lögbundna ferli eins og til dæmis vegna heimsfaraldurs Covid-19. Ólafur segist ekki koma auga á neitt neyðarástand.

„Við höfum engin svör fengið frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins önnur en óljós ummæli í fjölmiðlum að hún telji sig ekki hafa verið í órétti gagnvart lögunum um opinber innkaup. Nú eru liðnar rúmar tvær vikur án þess að Heilsugæslan hafi getað rökstutt hvernig það rúmast innan ákvæða laganna að kaupa inn hraðpróf fyrir hundruð milljóna króna án útboðs,“ segir Ólafur.

„Það bendir til að svörin séu alls ekki á reiðum höndum. Augljóst næsta skref í málinu er að þessi innkaup verði kærð til kærunefndar útboðsmála. Opinberum stofnunum ber að fara að lögum við innkaup sín, enda er tilgangur laganna að spara fé skattgreiðenda, hindra spillingu og efla samkeppni á markaði. Við komum ekki auga á neitt neyðarástand í kringum þessi innkaup, sem leiði af sér að Heilsugæslan sé hafin yfir lögin.“