Útsendari Leyniþjónustu Rússlands (FSB) hefur játað að hann hafi spilað hlutverk í árásinni gegn Alexei Navalny síðastliðinn ágúst en Navalny var í lífshættu og lá í dái eftir að hafa komist í tæri við taugaeitrið Novachok þegar hann var á leið til Moskvu. Rússnesk yfirvöld neita því alfarið að hafa átt hlut í málinu en Navalny er einn helsti andstæðingur Vladímír Pútíns Rússlandsforseta.
Navalny sjálfur fékk útsendarann, Konstantin Kudryavtsev, til þess að játa sök en til þess þóttist hann vera hátt settur embættismaður innan FSB sem hafði það verkefni að afla upplýsinga um af hverju verkið hafi mistekist. Kudryavtsev var upprunalega tregur til að svara spurningunum í gegnum síma en símtalið stóð alls yfir í rúmlega 45 mínútur.
Neita sök
Líkt og áður hefur verið greint frá var Navalny upprunalega fluttur á spítala í Omsk í Síberíu þar sem rússneskir læknar sögðust ekki hafa fundið nein merki um eitrun. Teymi Navalny var þó sannfært um að Rússar hafi átt hlut í málinu og fóru því fram á að Navalny yrði fluttur annað. Hann var þá fluttur á spítala í Berlín og útskrifaðist þaðan í september.
Rannsóknarhópurinn Bellingcat birti síðan skýrslu um málið í síðustu viku þar sem fram kom að sérstakt teymi á vegum FSB, sem sérhæfði sig í notkun taugaeiturs á borð við Novachok, hafi verið að fylgjast með Navalny lengi. Á árlegum blaðamannafundi Pútíns í síðustu viku gaf forsetinn lítið fyrir skýrsluna og sagði að ef útsendarar FSB hefðu viljað drepa Navalny þá hefðu þeir lokið við verkið.
Allt hafi farið úrskeiðis
Að því er kemur fram í frétt CNN um málið sagði útsendarinn að eitrinu hafi verið komið fyrir í klofbótinni á nærbuxum Navalny og að hann hafi verið sendur til þess að eyða sönnunargögnunum eftir að Navalny var fluttur á spítala. Þá greindi hann frá því að eitrið hefði átt að verða Navalny að bana en þar sem hann fékk læknisaðstoð mjög fljótlega varð ekki af því.
„Við gerðum ekki ráð fyrir að þetta myndi gerast. Ég er viss um að allt hafi farið úrskeiðis,“ sagði Kudryavtsev í símtalinu og vísaði til þess að ef vél Navalny hefði ekki neyðarlent hefði hann dáið. Aðspurður um hvort mögulega hafi skammturinn verið of lítill sagði Kudryavtsev að þeir hefðu „bætt við örlitlu aukalega.“
Hægt er að hlusta á símtalið í heild sinni hér fyrir neðan. Myndbandið er með enskum texta.