Út­sendari Leyni­þjónustu Rúss­lands (FSB) hefur játað að hann hafi spilað hlut­verk í á­rásinni gegn Alexei Naval­ny síðast­liðinn ágúst en Naval­ny var í lífs­hættu og lá í dái eftir að hafa komist í tæri við tauga­eitrið Novachok þegar hann var á leið til Moskvu. Rúss­nesk yfir­völd neita því al­farið að hafa átt hlut í málinu en Naval­ny er einn helsti and­stæðingur Vla­dí­mír Pútíns Rúss­lands­for­seta.

Naval­ny sjálfur fékk út­sendarann, Konstantin Kudrya­vt­sev, til þess að játa sök en til þess þóttist hann vera hátt settur em­bættis­maður innan FSB sem hafði það verk­efni að afla upp­lýsinga um af hverju verkið hafi mis­tekist. Kudrya­vt­sev var upp­runa­lega tregur til að svara spurningunum í gegnum síma en sím­talið stóð alls yfir í rúmlega 45 mínútur.

Neita sök

Líkt og áður hefur verið greint frá var Naval­ny upp­runa­lega fluttur á spítala í Omsk í Síberíu þar sem rúss­neskir læknar sögðust ekki hafa fundið nein merki um eitrun. Teymi Naval­ny var þó sann­fært um að Rússar hafi átt hlut í málinu og fóru því fram á að Naval­ny yrði fluttur annað. Hann var þá fluttur á spítala í Ber­lín og út­skrifaðist þaðan í septem­ber.

Rann­sóknar­hópurinn Belling­cat birti síðan skýrslu um málið í síðustu viku þar sem fram kom að sér­stakt teymi á vegum FSB, sem sér­hæfði sig í notkun tauga­eiturs á borð við Novachok, hafi verið að fylgjast með Naval­ny lengi. Á ár­legum blaða­manna­fundi Pútíns í síðustu viku gaf for­setinn lítið fyrir skýrsluna og sagði að ef út­sendarar FSB hefðu viljað drepa Naval­ny þá hefðu þeir lokið við verkið.

Allt hafi farið úrskeiðis

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið sagði út­sendarinn að eitrinu hafi verið komið fyrir í klof­bótinni á nær­buxum Naval­ny og að hann hafi verið sendur til þess að eyða sönnunar­gögnunum eftir að Naval­ny var fluttur á spítala. Þá greindi hann frá því að eitrið hefði átt að verða Naval­ny að bana en þar sem hann fékk læknis­að­stoð mjög fljót­lega varð ekki af því.

„Við gerðum ekki ráð fyrir að þetta myndi gerast. Ég er viss um að allt hafi farið úr­skeiðis,“ sagði Kudrya­vt­sev í sím­talinu og vísaði til þess að ef vél Naval­ny hefði ekki neyðar­lent hefði hann dáið. Að­spurður um hvort mögu­lega hafi skammturinn verið of lítill sagði Kudrya­vt­sev að þeir hefðu „bætt við ör­litlu auka­lega.“

Hægt er að hlusta á símtalið í heild sinni hér fyrir neðan. Myndbandið er með enskum texta.