Theo­dóra Hug­rún Ólafs­dóttir, fyrr­verandi starfs­maður Digra­nes­kirkju, segir deilum í kirkjunni alls ekki lokið þrátt fyrir að biskup hafi vikið séra Gunnari Sigur­jóns­syni, fyrr­verandi sóknar­presti, úr starfi í síðasta mánuði. Í lok síðustu viku fékk Theo­dóra upp­sagnar­bréf, en hún telur að henni sé sagt upp á þeim for­sendum að hún hafi staðið með þol­endum í máli séra Gunnars.

„Við getum byrjað á því að ég fékk upp­sagnar­bréf á föstu­daginn. Það kemur þarna ný sóknar­nefnd og of­beldið heldur á­fram ef ég á alveg að segja eins og er. Sig­ríður kirkju­vörður er komin í leyfi og prestarnir voru færðir í skjól í aðrar kirkjur. Það er verið að bola okkur öllum út,“ segir Theo­dóra, og vísar þar í mál Sig­ríðar Sigurðar­dóttur sem Frétta­blaðið fjallaði um í síðustu viku.

Sig­ríður er kirkju­vörður í Digra­nes­kirkju en fór ný­verið í veikinda­leyfi í kjöl­far á­sakana hennar á hendur Val­gerði Snæ­land Jóns­dóttur, nýjum sóknar­nefndar­for­manni, um and­legt og líkam­legt of­beldi á vinnu­stað.

Spurð um á­stæðuna að baki upp­sagnar­bréfinu segist Theo­dóra ekki svarað því, en bætir þó við:

„Við stöndum með þol­endum. Það er engin önnur á­stæða til,“ segir Theo­dóra.

Theo­dóra segir stöðu sína í þessu máli mjög erfiða. Biskups­stofa geti ekki hlutast til í málinu þar sem sóknar­nefnd sjái um allar manna­ráðningar.

„Sóknar­nefnd er yfir öllum starfs­mönnum innan kirkjunnar, fyrir utan presta og djákna. Svo við vitum ekkert hvert við eigum að leita þar sem þau eru yfir öllu þarna inni,“ segir Theo­dóra.

Í sam­tali við Frétta­blaðið í síðustu viku greindi Val­gerður Snæ­land Jóns­dóttir, for­maður sóknar­nefndar kirkjunnar, frá því að það væri ein­hugur sóknar­nefndar að fá séra Gunnar aftur til starfa. Theo­dóra segir það út­spil ekki hafa komið sér á ó­vart.

„Það hefur verið greini­legt mjög lengi að þau vilji fá hann aftur. Núna þegar nýja stjórnin tók við kom nýr for­maður sóknar­nefndar. Sem dæmi, síðan hann fór í leyfi, er hans skrif­stofa alveg ó­snert. En eftir að kven­prestarnir komu fram í fjöl­miðlum... þær fengu til mið­nættis til að hypja sig út ásamt öllu dótinu sínu. Það er búið að vera mjög skýr af­staða með honum frá nokkrum aðilum í sóknar­nefnd, og núna for­manni sóknar­nefndar,“ segir Theo­dóra.

Hún hafi á­kveðið að stíga fram og segja sína sögu eftir upp­sögnina þar sem hún telur að­gerðir sóknar­nefndar rangar.

„Þetta er hreinlega rangt. Mér blöskrar að það geti ein­hver komið þarna inn og breytt öllu eftir þeirra vilja. Kirkjan er skjól og á að vera skjól fyrir alla, líka þol­endur. En það er það bara ekki lengur,“ segir Theo­dóra. Þá séu næstu skref í þessu máli í skoðun.

„Ég er að skoða mitt mál hjá mínu stéttar­fé­lagi og tek það svo bara þaðan,“ segir Theodóra.

Rætt var við Theo­dóru um málið í nýjasta þætti Frétta­vaktarinnar á Hring­braut fyrr í kvöld sem sjá má hér að neðan.