„Ég er mjög verkjuð alla daga og er eiginlega farin að venjast því að vera með stöðuga verki,“ segir Sunna Elvíra Þorkelsdóttir, en hún hefur enn enga tilfinningu fengið í neðri hluta líkamans eftir að hafa fallið milli hæða, um fjóra metra, á heimili sínu á Málaga á Spáni um miðjan janúar. „Hún er lömuð frá brjósti og hefur enga tilfinningu fengið,“ segir Unnur Birgisdóttir, móðir Sunnu og bætir við: „Hún er reyndar komin með spasma í fætur núna sem er þekkt hjá lömuðum.“

Sunna segir fjölskylduna hafa verið í góðu sambandi við lækna á taugadeild Landspítalans. „Það er deildin sem kemur til með að taka á móti mér þegar ég kemst loksins heim. Við höfum sjálf þurft að senda þeim allar myndir af mér, röntgenmyndirnar mínar, læknaskýrslur og rapport úr aðgerðinni - bara allar nauðsynlegar upplýsingar sem þeir þurfa til að undirbúa sig fyrir innlögnina mína þar,“ segir hún. Aðspurð um batahorfur, segist Sunna í rauninni ekki vilja hugsa um það. Hún leggi alla áherslu á að komast í almennilega meðferð, helst alla leið heim.

Notar google Translate til að skilja meiðslin

En hvernig eru aðstæður þarna úti í raun og veru?

„Ég get talið á fingrum annarrar handar hversu oft ég hef fengið að tala við lækni eftir að ég vaknaði eftir aðgerðina. Ég hef ekki einu sinni fengið viðtal við skurðlækninn sem framkvæmdi aðgerðina. Hann hefur hreinlega ekki verið til viðtals,“ segir Sunna, sem hefur þurft að notast við Google translate til að átta sig á líkamlegu ástandi sínu eftir slysið.

„Skýrslurnar eru allar á spænsku þannig að eina leiðin fyrir mig til að fá upplýsingar um líkamlegt ástand á mér er að nota google translate og reyna að rýna í hvað þar stendur. Ég komst til dæmis að því, tveimur vikum eftir aðgerðina, að ásamt því að vera þríhryggbrotin væri ég með þrjú brotin rifbein. Þá var mér búið að vera mjög illt í síðunni og skildi ekkert í því enda meiðslin öll í bakinu að ég hélt..“

Hún segir sjúkrahúsið og þjónustuna úti ekkert í líkingu við það sem við eigum að venjast hér heima.

„Það er enginn stofugangur eða neitt. Það koma ekki læknar reglulega til að athuga hvernig ég hef það, það er ekki tekinn blóðþrýstingur hjá mér. Það eru voða lítil afskipti af mér í rauninni, fyrir utan algjöra grunnþjónustu. Ég fæ jógúrt á morgnana, fisk í hádeginu, síðdegiskaffi og kvöldmat. Það er enginn hérna sem er sérhæfður í að hugsa um lamaða manneskju. Það kemur sjúkraþjálfari til mín einu sinni í viku á mánudögum. Hann stoppar í tíu mínútur, hreyfir til ökklana og gerir einhverjar æfingar með löppunum.“

Sunna segir foreldra sína sjá um alla helstu umönnun en hjúkrunarfólk og læknar á Íslandi hafi verið þeim innan handar.

„Þau eru hérna frá átta á morgnana til tíu á kvöldin að hugsa um mig. Ég er með legusár bæði á fótum og á rassi þannig að það þarf stöðugt að vera að snúa mér. Svo fengu þau flensu um helgina og komust ekki til mín á sunnudeginum. Ég var hér ein og var ekkert snúið. Og ég fékk ekki einu sinni vatnsglas til að skola íbúfeninu niður. Mér var sagt að fara fram í sjálfsala til að kaupa vatn. Það er auðvitað engin leið fyrir mig að komast fram í sjálfsala, þannig ég mátti bara kyngja þessum töflum af íbúfeni, hryggbrotin og rifbeinsbrotin. Það er alveg til skammar hvernig þetta er hérna. Enda eru allar sjúkrastofur hér fullar af fjölskyldum sem eru að hugsa um sjúklingana,“ útskýrir Sunna.

„Það talar enginn við mann hérna. Ég hef heldur ekki fengið neina andlega hjálp. það er engin sálfræðiaðstoð og engin áfallahjálp.“

Fékk taugaáfall og var sprautuð niður

Hvernig er andlega hliðin?

„Ég er að bilast hérna þetta er svo erfitt“ segir Sunna. „Ég vakna upp á spítala og get ekki hreyft fæturna. Ég er orðin lömuð. Stuttu eftir það er mér tilkynnt að maðurinn minn sitji í fangelsi hérna úti grunaður um verknaðinn, það er að segja um að hafa átt þátt í slysinu, sem svo auðvitað kom í ljós að var ekki rétt. Og síðan að hann hafi farið frá Spáni og verið handtekinn heima í tengslum við fíkniefnainnflutning sem kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Svo þessi vonbrigði með flutning á milli spítala. Það er líka búið að taka mjög á mig, því maður byggir alltaf upp vonir sem svo bregðast,“ segir Sunna og lýsir erfiðum tilfinningum sem fylgja áföllum á borð við þau sem hún hefur mátt þola undanfarið. „Svo í gær, þá gerðist eitthvað í líkamanum. Allt í einu fór mig að svima ofsalega mikið, mér sortnaði fyrir augum, ég kastaði upp og síðan allt í einu missti ég andann. Ég náði bara ekki andanum. Og þá fékk ég algjört panik og var ofsalega hrædd. Ég fékk bara taugaáfall hérna. Læknarnir hlupu hingað inn og þurftu að sprauta mig niður. Stundum bara læðast taugarnar aftan að manni og segja bara Stopp! Núna þarftu að slaka á! En það er bara svolítið erfitt í þessum kringumstæðum og í gær þá bara brást eitthvað inn í mér,“ segir Sunna og játar því að það muni taka langan tíma að vinna úr öllu því sem hefur hent hana og fjölskyldu hennar.

Réttarstaða Sunnu og samskiptin við lögregluna ytra hafa verið talsvert á reiki. Fjölmiðlar greindu til að mynda frá því að Sunna væri í farbanni vegna fíkniefnamáls sem kom upp á Spáni nokkrum dögum fyrir áramót. Sunna kannast ekki við neitt slíkt og segist ekkert vita um fíkniefnamál, en segir spænsku lögregluna vita upp á sig sökina. „Þeir eru búnir að brjóta svívirðilega á réttindum mínum en þeim virðist vera alveg sama. Lögreglan heima á Íslandi er búin að tjá lögmanninum mínum að þeir viti að það sem þeir eru að gera brjóti í bága við bæði mannréttinda- og mannúðarsjónarmið. En þeir virðast bara ætla að taka þá áhættu í ljósi einhverra rannsóknarhagsmuna og ætla að skýla sér á bak við það,“ segir Sunna. Hún segir erfitt að henda reiður á því nákvæmlega af hverju henni er haldið eða hver réttarstaða hennar er.

„Það er ekki hægt að henda reiður á hvað þeir eru að rannsaka eða skoða, eða hver minn þáttur í því öllu saman sé. Það fást engin svör um það og þeir skýla sér á bak við að málsgögnin séu lokuð. Lögmaðurinn minn fær ekki aðgang að málsgögnum eða hvað það er í rauninni sem þeir eru að reyna fá út úr mér. Það er eitthvað við þetta sem er svo skrítið. Þeir segjast ekki geta tjáð sig um málið þegar eftir því er leitað. Þetta er eitthvað „top secret“ mál og er augljóslega hluti af miklu stærra máli en því sem maðurinn minn er flæktur inn í. Þeir eru að reyna að uppræta einhverja hringi hér á Spáni held ég. Eða við fáum það öll á tilfinninguna, án þess við höfum nokkuð fyrir okkur í því. Við höldum að þess vegna séu málsgögnin lokuð og enginn fái að vita neitt. Þeir virðast reiðubúnir að taka þessa áhættu; að brjóta þessi mannréttindaákvæði og þeir eru búnir að segja íslensku lögreglunni það.“

Bað um lögmann og túlk

Hvernig hafa samskipti þín við lögregluna verið og hvenær hófust þau?

„Fyrst var það lögreglan hérna í Marbella, sem var að rannsaka slysið og meint heimilisofbeldi. Og svo var það lögreglan í Alicante, sem er í öðru umdæmi. Þeir komu til mín til Málaga frá Alicante. Það var daginn eftir að maðurinn minn var handtekinn heima. Þá komu þeir hér inn og vöktu mig klukkan átta um morguninn og fóru að spyrja mig spurninga.“

Sunna segir lögregluna frá Alicante hafa verið frekar almennilega en þeir hafi þó ætlað að demba sér beint í spurningar um leið og þeir komu.

„Ég þekki náttúrulega þær reglur sem þarf að uppfylla við svona yfirheyrslur,“ segir Sunna, sem er lögfræðingur að mennt. „Þeir ætluðu að byrja strax að yfirheyra mig á spænsku en jafnvel þótt ég skilji spænskuna ágætlega þá vildi ég nú samt að allt sem kæmi frá mér væri rétt eftir mér haft þannig að ég fór strax fram á að mér yrði útvegaður túlkur og að lögmaður minn væri viðstaddur, bara til þess að allt yrði á hreinu og þetta væri samkvæmt lögum og reglum.“

Sunna segir að um örfáar spurningar hafi verið að ræða sem hún hafi svarað eftir bestu getu.

„Flest eitthvað sem ég hafði ekki hugmynd um, það eina sem ég gat sagt eitthvað um var hvort eitthvað einkennilegt hafi verið í fari Sigurðar síðustu dagana. Hvort hann hefði verið stressaður eða borið á einhverju undarlegu í fari hans, sem ég taldi ekki vera.

„Síðan fara þeir og svo var mér tilkynnt síðar um daginn að farið hefði verið fram á  passinn yrði tekinn af mér og að það hefði verið samþykkt en engin tímamörk á því.“

Sunna segir sér hafa komið á óvart að farbannið hafi ekki haft nein tímamörk. 

„Ég fékk spænska lögmanninn minn hér úti til að ganga mjög hart að því að fá einhver tímamörk sett á þetta. Því ótímabundið farbann og ég í þessu ástandi, þetta er bara brútal. Og óvissan er nagandi.“

Stöðvuð korter í brottför

En hvernig var atburðarásin þegar það átti að flytja þig til Toledo?

„Þetta var bókstaflega korter í brottför til Toledo, sem er svona sérhæft sjúkrahús fyrir lamaða með endurhæfingu og sjúkraþjálfun. Það var alveg búið að græja mig fyrir brottför og sjúkrabíllinn var kominn að sækja mig. Og þá bara kemur inn teymi af læknum sem segja, nei þú ert ekki að fara til Toledo, það er búið að blása það af.

Aðspurð um hvenær henni hafi orðið ljóst að hún fengi ekki að fara og að lögreglan hefði mögulega eitthvað með það að gera segist Sunna hafa áttað sig á því á þessari stundu, þegar læknarnir tilkynntu henni að ekki yrði af brottför.

„Þeim ber skylda til að að tilkynna lögreglu ef ég er að fara af spítalanum. Ég er frjáls ferða minna innan Spánar og hef það skriflegt frá dómara. En samt sem áður virðist hann hafa sagt læknum hér einhverjar reglur um að það ætti að hafa samband við þá ef ætti að færa mig. Þeir segja mér svo síðar um daginn að þetta sé eitthvert ferli sem þurfi að fara eftir og fyrst þurfi ég að fara á spítala í Sevilla, sem sé tilvísunarspítali á Toledo, og þeir semsagt meti mig eða sendi einhverja umsókn til Toledo um að ég fái að fara í meðferð þar. Og þess vegna hafi ég ekki mátt fara. Þeir viti ekki hve langan tíma það taki að fá mig flutta til Sevilla. Núna er liðin vika og ég er enn að bíða og þeir yppa bara öxlum og vita ekkert.“

Vonsvikin eftir hjálparbeiðni

Sunna vísar til spænskra laga og segir unnt samkvæmt undanþágu í lögunum að aflétta farbanni með ábyrgð. „Við erum búin að leggja fram erindi til íslenska ríkisins þess efnis að ég fái að fara fara heim á þessari undanþágu en þeir ábyrgist að ég verði til taks ef spænska lögreglan vilji yfirheyra mig frekar eða hafi frekari spurningar. Þessi beiðni hefur verið lögð fyrir utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra og íslenska sendiherrann. Þetta var gert í síðustu viku og ég bjóst við að það yrði undirritað strax því ég er ekki að fara að flýja neitt sko. Ég fer væntanlega ekki hlaupandi út af spítalanum, ég get ekki gengið og hef heldur engan hug á að fara neitt. Ég á eftir að vera í sjúkrameðferð í marga mánuði til að reyna að ná heilsu á ný þannig að mér finnst óskiljanlegt af hverju þeir hafa ekki skrifað undir þetta og afhent lögmanni mínum sem gæti þá farið með þetta til dómara og mögulega fengið vegabréfið mitt til að ég komist heim og undir læknishendur.“

Sunna segist engar skýringar hafa fengið á því af hverju ráðuneytið hefur dregið lappirnar í þessu. „Og ég er satt að segja bara vonsvikin. Því fyrir mér lítur þetta út sem mín eina von til að komast heim, að ríkið aðstoði mig í þessu. Og ég er það örvæntingarfull að ég hef meira að segja sagt að ég sé tilbúin að láta passann heima eða vera með staðsetningarbúnað ef það hjálpar. Bara ef ég kemst heim. Heim til dóttur minnar og heim til íslenskra lækna sem vita hvað þeir eru að gera. Og að ég fái þá aðstoð sem ég á rétt á.“

Hún segir að eftir að hún fékk taugaáfall á spítalanum í gær, hafi hún áttað sig á að nú yrði að fá hreyfingu á málið. Þess vegna ræði hún við fjölmiðla. „Ráðuneytin eru ekki að gera neitt. Það liggur hjá þeim þetta plagg frá lögmanninum mínum. Ég vil bara að það komist hreyfing á þetta. Það sé skrifað undir þetta og mér komið heim.“

Kvíðir framhaldinu og næstu dögum

„Núna dauðkvíði ég fyrir að foreldrar mínir þurfi að fara heim. Þau þurfa að fara að snúa til vinnu. Hver á að hugsa um mig þá?“ spyr Sunna og segir erfitt að vera upp á aðra komin, enda allir í vinnu og fólk að sinna sínum skyldum. „En ég er alveg upp á aðra komin þrátt fyrir að liggja á gjörgæslu, þar sem maður hefði haldið að maður fengi aðstoð og aðhlynningu. Þannig að einhver verður að koma, það er enginn hér til að hugsa um mig,“ segir Sunna og bætir við að það sé í skoðun innan fjölskyldunnar hvort einhver hafi tök á að fara út til hennar.

Um sex milljónir hafa safnast í söfnun sem hrundið var af stað til að koma Sunnu heim í sjúkraflugi. Hún segist bæði þakklát og hrærð, þegar söfnunin berst í tal. „Þetta safnaðist líka á ótrúlega stuttum tíma. Það var komið fyrir fluginu á tveimur dögum.“

"Vildum prófa að búa á Spáni"

Sunna og eiginmaður hennar höfðu flutt til Spánar um miðjan september í fyrra, selt hús sitt í Fífuhjalla í Kópavogi og keypt sér hús á Málaga, í litlum vinalegum bæ rétt fyrir utan Marbella, eins og hún lýsir því. Hún hafði fengið vinnu á skrifstofu úti og eiginmaðurinn var að skoða byggingaverkefni. Dóttir þeirra var komin með pláss á leikskóla.  „Þetta leit allt  mjög eðlilega út,“ segir hún. „Við vildum bara prófa að búa á Spáni í einhvern tíma og sjá hvert það myndi leiða. Þannig að þegar þessi ósköp dundu yfir þá var það mikið áfall fyrir mig, af því ég hafði ekki hugmynd um að eitthvað væri að og þetta var mjög óvænt sem átti eftir að koma á daginn.“

Varðstu ekki neins vör dagana fyrir slysið sem gæti gefið til kynna að eitthvað væri í gangi eða að einhverjir væru á sveimi í kringum ykkur?

„Nei, og ef svo hefur verið, þá hefur maðurinn haldið mér alveg utan við það, sem betur fer segi ég. Það kom mér gjörsamlega í opna skjöldu að hann hefði verið handtekinn heima. Ég hafði ekki hugmynd um neitt og hef engar upplýsingar getað veitt um þetta. Þessar spurningar sem lögreglan var að spyrja mig; ég kom alveg af fjöllum: Bara ha, nei, ég þekki enga aðila í Alicante.“ Ég gat í rauninni ekkert hjálpað þeim. 

Allt í þoku dagana kringum slysið

Sunna hikar þegar hún er spurð um kvöldið sem slysið varð.

„Það var allt frekar eðlilegt sko,“ en eins og ég segi, það er eins og ég hafi fengið eitthvað högg; eitthvað högg á minnið.  Ég á mjög erfitt með að hugsa til baka. Dagarnir á undan og vikurnar á undan. Þetta er allt í einhverri þoku. Læknarnir segja að þetta komi með tímanum. En eins og ég segi, ef ég hefði einhvern til að tala við og fengi einhverja aðstoð með þetta minnisleysi til dæmis, ég hef enga aðstoð fengið frá neinum fagaðila með það,“ segir Sunna og bindur vonir við að fá meiri aðstoð þegar hún kemur heim.

Hver kom að þér eftir slysið? Var það maðurinn þinn? „Mér skilst það hafi verið maðurinn minn og mér skilst hann hafi hringt á sjúkrabíl og ég hafi farið beint á spítala. Það var enginn þriðji aðili þarna, bara við hjónin og dóttir okkar.“ Sunna og Sigurður hafa ekkert hist eftir slysið. „Hann er náttúrulega búinn að vera í varðhaldi þannig að það hafa engin samskipti verið. Það er rosalega erfitt að vita af honum þar. Mig vantar svo að fá svör. Hvað gekk eiginlega á? Hvað var í gangi? Hvað er hann búinn að koma mér í?“

Ertu honum reið?

„Já ég er honum reið fyrir að hafa komið mér í þessa stöðu að ég sé föst hérna. Ég veit samt ekkert um hans mál, nema bara það sem ég les í fjölmiðlum. Ég fæ engar upplýsingar eða lögmaðurinn minn frá lögreglunni um þetta mál því ég er ekki aðili að því.“

"Ferðu ekki að hætta á þessum spítala og fara bara að koma heim?"

Sunna segist ætla að einblína á að komast heim, fá að fara í endurhæfingu og sjúkraþjálfun. „Og komast heim til dóttur minnar. Hún er bara númer eitt tvö og þrjú hjá mér. Amma mín er með hana heima  og mágkonur mínar. Ég talaði við Kópavogsbæ og þeir tóku okkur mjög vel og hún fékk að koma strax inn á gamla leikskólann sinn og á deildina sína þar sem allir sömu krakkarnir eru og sömu fóstrurnar þannig að hún small beint inn í sitt gamla umhverfi. Og ég hef verið í mjög góðu sambandi við allt starfsfólkið þar.“

Heldurðu að dóttir þín sé áhyggjufull?

„Nei, hún ber þess ekki merki að vera áhyggjufull. Hún skilur auðvitað ekkert af hverju ég er hérna úti og af hverju ég er svona slæm í fótunum. Hún spyr mig bara, ferðu ekki að hætta á þessum spítala og fara bara að koma heim? Það er auðvitað ógeðslega erfitt að segja alltaf bara, já ég fer alveg að koma heim.“