Bréf sem stílað var á tólf ára stúlku í Litáen hefur loksins komist til skila 51 einu ári eftir að það var sent frá pennavini hennar í Póllandi.
„Ég hélt að einhver væri að hrekkja mig,“ segir Genovefa Klonovska eftir að hún fékk bréfið í hendurnar en það innihélt handgerða rós og tvær dúkkulísur.
Bréfið fannst á milli þilja ásamt sautján öðrum ósendum bréfum þegar veggur var brotinn niður í gömlu pósthúsi í útjaðri Vilnius.
„Iðnaðarmennirnir lögðu til að við myndum henda þessum gömlu bréfum en ég hringdi í staðinn í pósthúsið. Ég er svo ánægður að þeir höfðu áhuga á þessu,“ segir Jurgis Vilutis, eigandi byggingarinnar.
Að sögn Vilutis eru bréfin flest frá 7. og 8. áratug síðustu aldar og voru að öllum líkindum falin af óprúttnum starfsmanni pósthússins eftir að hann opnaði þau í leit að peningum eða verðmætum.
Á þeim tíma þegar bréfin voru send var Litáen partur af Sovétríkjunum og hefur því margt breyst í landinu síðan þá, til að mynda götunöfn og húsnúmer. Starfsmenn Litáenska póstsins eyddu mörgum mánuðum í að leita uppi núverandi dvalarstað viðtakenda bréfanna og hingað til hefur aðeins verið haft uppi á fimm manns. Í nokkrum tilvikum var börnum látinna viðtakenda afhend bréf foreldra sinna.
„Við fundum fyrir siðferðislegri skyldu að gera þetta,“ segir Deimante Zebrauskaite, yfirmaður þjónustusviðs Litáenska póstsins. „Ein kona sagði upplifunina vera svipaða því og að fá flöskuskeyti. Fólk sýndi miklar tilfinningar. Sumum leið eins og þeir væru að fá innsýn inn í daglegt líf látinna foreldra sinna.“
Bréfið til Klonovska er frá árinu 1970 og var því komið til skila í desember í fyrra. Bréfið er frá pólskri stúlku að nafni Ewa og lýsir daglegu lífi hennar í pólsku þorpi. Klonovska, sem er á sjötugsaldri, segist ekkert muna eftir stúlkunni. Hún telur að hún hafi skrifað til hennar eftir að hún fann heimilisfangið í auglýsingu í dagblaði og að bréfaskiptin hafi dottið niður þegar hún fékk ekki svar til baka.
„Það er mjög gott að bréfið var léttvægt. Missir þess breytti ekki neinum lífum,“ segir Klonovska og veltir því fyrir sér hvað hefði gerst ef týndar ástarjátningar eða bónorðsbréf hefðu dúkkað upp mörgum áratugum síðar.