Bréf sem stílað var á tólf ára stúlku í Litáen hefur loksins komist til skila 51 einu ári eftir að það var sent frá penna­vini hennar í Pól­landi.

„Ég hélt að ein­hver væri að hrekkja mig,“ segir Genovefa Klonovska eftir að hún fékk bréfið í hendurnar en það inni­hélt hand­gerða rós og tvær dúkku­lísur.

Bréfið fannst á milli þilja á­samt sau­tján öðrum ó­s­endum bréfum þegar veggur var brotinn niður í gömlu póst­húsi í út­jaðri Vilnius.

„Iðnaðar­mennirnir lögðu til að við myndum henda þessum gömlu bréfum en ég hringdi í staðinn í póst­húsið. Ég er svo á­nægður að þeir höfðu á­huga á þessu,“ segir Jur­gis Vilutis, eig­andi byggingarinnar.

Að sögn Vilutis eru bréfin flest frá 7. og 8. ára­tug síðustu aldar og voru að öllum líkindum falin af ó­prúttnum starfs­manni póst­hússins eftir að hann opnaði þau í leit að peningum eða verð­mætum.

Á þeim tíma þegar bréfin voru send var Litáen partur af Sovét­ríkjunum og hefur því margt breyst í landinu síðan þá, til að mynda götu­nöfn og hús­númer. Starfs­menn Litá­enska póstsins eyddu mörgum mánuðum í að leita uppi nú­verandi dvalar­stað við­tak­enda bréfanna og hingað til hefur að­eins verið haft uppi á fimm manns. Í nokkrum til­vikum var börnum látinna við­tak­enda af­hend bréf for­eldra sinna.

„Við fundum fyrir sið­ferðis­legri skyldu að gera þetta,“ segir Deimante Zebrauskaite, yfir­maður þjónustu­sviðs Litá­enska póstsins. „Ein kona sagði upp­lifunina vera svipaða því og að fá flösku­skeyti. Fólk sýndi miklar til­finningar. Sumum leið eins og þeir væru að fá inn­sýn inn í dag­legt líf látinna for­eldra sinna.“

Bréfið til Klonovska er frá árinu 1970 og var því komið til skila í desember í fyrra. Bréfið er frá pólskri stúlku að nafni Ewa og lýsir dag­legu lífi hennar í pólsku þorpi. Klonovska, sem er á sjö­tugs­aldri, segist ekkert muna eftir stúlkunni. Hún telur að hún hafi skrifað til hennar eftir að hún fann heimilis­fangið í aug­lýsingu í dag­blaði og að bréfa­skiptin hafi dottið niður þegar hún fékk ekki svar til baka.

„Það er mjög gott að bréfið var létt­vægt. Missir þess breytti ekki neinum lífum,“ segir Klonovska og veltir því fyrir sér hvað hefði gerst ef týndar ástar­játningar eða bón­orðs­bréf hefðu dúkkað upp mörgum ára­tugum síðar.