Gunnar Waage, sem stendur fyrir undirskriftasöfnun til stuðnings tveggja sómalskra flóttakvenna sem brottvísa á úr landi sendi fyrirspurn til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, þar sem hann óskaði eftir aðstoð við að greiða úr máli þeirra.
Forseti Íslands svaraði fyrirspurninni í dag og segir að hann hafi ekki bein afskipti af ákvörðunum um stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi.
„Ég hef átt fundi með fulltrúum samtaka sem láta sig þau mál varða en ég blanda mér ekki með beinum hætti í mál einstaklinga,“ segir í svari Guðna.
Hann vísar til Alþingis en segir það vera ljóst að vilji sé fyrir hendi að vísa ekki konum í viðkvæmri stöðu úr landi.
„Ég vísa að öðru leyti til umræðna á Alþingi þar sem ráðherrar hafa meðal annars látið í ljós þá skoðun að athuga þurfi stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi. Ljóst er að vilji er til þess á þingi að konum í viðkvæmri stöðu verði ekki vísað úr landi.“
Fatma Hassan Mohamoud og Nadifa Mohamed eru ungar konur frá Mogadishu, höfuðborg Sómalíu. Þær sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi en vegna þess að þær fengu áður vernd í Grikklandi hafa umsóknir þeirra ekki fengið efnislega meðferð og til stendur að vísa þeim úr landi.