Sonur Jónu Svövu Sigurðardóttur er á 17. ári og hefur verið greindur með dæmigerða einhverfu og þroskaröskun. Eftir að hafa lent í árekstri við einstakling í frístundaúrræðinu Vinaskjóli í bænum var honum boðið í annað úrræði þar sem hann er einn, með tveimur starfsmönnum, frá um klukkan 13 til klukkan 16.30 alla daga.

Jóna Svava segir að úrræðið hafi í fyrstu aðeins átt að vera tímabundið en nú líti út fyrir að þetta eigi að vera til frambúðar. Hann á þrjú ár eftir í námi sínu við Tækniskólann og mun á meðan því stendur einnig vera í frístundaúrræði eftir skóla.

Jóna Svava birti í gær á Facebook-síðu sinni myndir af aðstöðunni en eftir að sonur hennar byrjaði fyrst að fara þangað hefur húsnæðið tekið miklum breytingum, til hins verra. Í byrjun apríl tæmdu starfsmenn Reykjadals húsnæðið og skildu það eftir í núverandi mynd en þegar hann fór fyrst í úrræðið var það á þeirra vegum. Eins og má sjá á myndum í fréttinni er búið að fjarlægja nærri allt af veggjum og er lítið eftir af húsgögnum.

„Ég fór að sækja minn mann á föstudaginn og fékk mikið sjokk. Það mikið sjokk að ég sá eftir því þegar ég kom heim að hafa ekki tekið myndir til að geta haft þær til frásagnar og sýnt manninum mínum líka. Ég ákvað því að fara, ásamt manninum mínum, í gær á óvenjulegum tíma eða klukkan 14:30 að sækja son okkar,“ segir Jóna Svava í færslunni sem hún deildi með myndunum en þegar hún kom sat sonur hennar einn í horni húsnæðisins með heyrnartól á eyrunum í tölvunni. Annar starfsmaðurinn var í símanum og hinn lá í sófanum.

Lítið er eftir af húsgögnum í húsnæði sem ekki er mjög hlýlegt.
Mynd/Aðsend

Verst að hann er ekki með jafnöldrum

Þótt svo að Jóna Svava geri miklar athugasemdir við aðstöðuna sjálfa er það ekki það sem henni finnst verst við það að hann sé þarna, heldur finnst henni verst að hann sé einn þarna og þar af leiðandi ekki í neinum samskiptum við jafnaldra sína. Að hennar mati er mikil þörf á því að bæta úr því svo hann geti lært að umgangast jafnaldra sína. Annars er hann í hættu á að einangrist enn frekar.

„Hann fær ekki að prófa sig áfram og eiga samskipti við jafnaldra. Þetta er það sem að ég er mest pirruð yfir, að hann sé bara þarna. Því hann þarf að læra að vera í kringum fólk og maður vill auðvitað að hann læri samskipti,“ segir Jóna Svava og að það sé afar dapurt að hann sé alltaf einn.

Hún segir að hún sé búin að vera í samtali við bæði Hafnarfjarðarbæ og Vinaskjól og óska þess að það verði fundin lausn á húsnæðismálinu

Ferðaþjónustan týndi honum tvisvar

„En okkur er sagt af fólki sem er yfir og stjórnar, hvort sem það er frístundaúrræðið eða Hafnarfjarðarbær, að það sé ekki hægt að gera breytingar á hans málum eins og staðan er í dag. Við erum ekki sátt,“ segir Jóna Svava í færslu sinni en þar greinir hún einnig frá því að í vetur hafi hann í tvígang týnst þegar var verið að sækja hann í Tækniskólann í Reykjavík en hann ýmist sækir tíma á Skólavörðuholtinu eða í aðstöðu Tækniskólans í Hafnarfirði.

Fyrra skiptið var í september og það seinna síðasta fimmtudag. Í bæði tilfellin átti hann að fá far með bíl í akstursþjónustu fatlaðra frá Tækniskólanum í Reykjavík og í frístundaúrræðið. Í fyrra skiptið var honum ekið á vitlaust heimilisfang þegar hann átti að fara í frístund og í seinna skiptið, á fimmtudag, hélt akstursþjónustan að Jóna Svava hefði afpantað bílinn, sem hún gerði ekki.

„Það sem maður gagnrýnir helst er að hann sé þarna einn, þótt svo að það séu fleiri annmarkar eins og að þau hafi ekki hringt þegar hann hefur týnst þessi tvö skipti. Þessi aðstaða er fyrir neðan allar hellur,“ segir Jóna Svava en á fimmtudag hringdi enginn fyrr en klukkan 14:42 til að athuga með hann því hann var ekki enn mættur og í fyrra skiptið hafði enginn samband til að athuga með hann þegar hann hafði ekki mætt þótt að meira en tvær klukkustundir hafi liðið frá því að hann átti að vera mættur.

Jóna Svava segir að hún hafi rætt málið við Hópbíla og að í þeirra samtali hafi komið fram að bíllinn sé ekki alltaf á sama tíma vegna umferðar eða færðar en sonur hennar er með skráðar fastar ferðir frá Tækniskólanum til Vinaskjóls

„Þegar átt er við fastar ferðir þá á bíllinn að koma kl 12:55 að sækja hann. Sonur minn er búinn í skólanum kl 13:00 en er oftast tilbúinn að fara í bílinn 12:55. Síðan er auðvitað háð umferð og veðurfari hvort hann komi í Vinaskjól, sem er staðsett við Menntasetrið við lækinn, alveg frá kl 13:05 og til 13:30. Tvo daga í viku er hann til dæmis í Tækniskólanum í Hafnarfirði, þannig að ferðin á þeim dögum tekur oft ekki nema örfáar mínútur. Hina dagana er hann að koma frá Skólavörðuholtinu,“ segir Jóna Svava að lokum.