Það er bein­línis stór­kost­legt að heyra og sjá út­varps­konuna lands­frægu, Lísu Páls­dóttur lýsa því hvernig kabarett­pönk­sveitin Kamar­org­hestar, sem hún söng og lék með um ára­bil, ögraði for­pokuðu sam­fé­laginu á Ís­landi á áttunda og níunda ára­tug síðustu aldar, en sveitin sendi frá sér hljóm­plötur með textum sem þóttu svo dóna­legir að Ríkis­út­varpið, seinni tíma vinnu­staður Lísu, bannaði þá um hæl.

Þar á meðal var lagið Bíttu í rass­gatið á þér, sem samið var um of­beldis­fullan fram­gang lög­reglunnar í garð ný­til­komins frjáls­ræðis unga fólksins á Ís­landi, sem var að gera upp­reisn gegn stakri í­halds­semi ráðandi afla, en sýnu kræfari var kannski lagið sem Lísa samdi textann við – og fjallaði um að fá sér á snípinn. Það gat ríkið ekki spilað með nokkru móti.

Sagan á bak við textann er sú að strákarnir í bandinu, sem starfaði aðal­lega í Köben, státuðu sig gjarnan af því að fá sér á broddinn á þessum tímum frjálsra ásta – og Lísa vildi náttúr­lega ekki vera minni manneskja á nýjum tímum kven­frelsis og rauð­sokka, og skrifaði því niður þennan svaka­lega texta þar sem hún toppaði strákana í orða­lagi. Hún gæti fengið sér á snípinn eins og þeir á broddinn – og hana nú og hafiði það.

Hér má sjá og heyra Lísu rifja upp þessa ó­borgan­legu tíma. Mannamál er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 19:00. Þátturinn er svo endursýndur klukkan 21:00.