Joe Biden, for­seti Banda­ríkjanna, taldi ríka á­stæðu til að senda for­stjóra banda­rísku leyni­þjónustunnar, Bill Burns, á fund Volodí­mír Selenskí Úkraínu­for­seta nokkrum vikum áður en Rússar réðust inn í landið.

CIA hafði fengið veður af því að Rússar ætluðu sér að ráða Selenskí af dögum og var Selenskí varaður við þessum á­ætlunum á fundinum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri bók, The Fig­ht of His Life: Insi­de Joe Biden‘s White Hou­se, eftir Chris Whipple sem kemur út í dag.

Fundurinn fór fram í janúar á síðasta ári, eða um það leyti sem Rússar sendu skrið­dreka sína að landa­mærunum og bjuggu sig undir inn­rás.

Í bókinni er því haldið fram að Selenskí hafi trúað því að að­eins væri um að ræða hótanir frá Rússum og þeir myndu ekki ráðast inn í landið. Honum hafi verið mjög brugðið þegar CIA sagðist hafa trú­verðugar upp­lýsingar um að Rússar væru á eftir honum.

Rússar réðust inn í landið nokkrum vikum síðar og hefur stríð, með til­heyrandi mann­tjóni, eyði­leggingu og hörmungum, nú staðið yfir í tæpt ár.

Í bók sinni segir Whipple að á­bendingar CIA hafi komið Selenskí að góðum notum. Rússar hafi sýnt honum bana­til­ræði í tví­gang en Selenskí í bæði skiptin verið skrefinu á undan.