Arnar Kjartans­son fékk miða af­hentan í strætó í gær frá ó­kunnugri konu sem bauðst til þess að biðja fyrir honum. Arnar er með sjald­gæfan húð­sjúk­dóm og segist reglu­lega verða fyrir ein­hvers­konar að­kasti vegna þessa.

Arnar tjáði sig fyrst um málið á sam­fé­lags­miðlinum Twitter í gær. Þar birtir hann mynd af miðanum sem konan rétti honum. „Ég get beðið til Guðs um að lækna húðina þína, vin­sam­legast hringdu,“ stendur á ensku á miðanum. Lét konan síma­númerið sitt fylgja.

„Ég sat framst í strætóinum og var á leið til tann­læknis. Ég var að hlusta á hlað­varp og allt í einu potar konan í mig, réttir mér miða og labbar út,“ segir Arnar. Hann náði því ekkert að tjá sig við konuna.

„Ég var bara frekar hissa. Ég hélt fyrst að hún væri að láta mig hafa númerið sitt,“ segir Arnar. Hann hafi verið gáttaður þegar hann hafi lesið á miðann.

„Ég hef heyrt af því að fólk sé að selja ein­hverja bæna­þjónustu til að lækna sjúk­dóma. Ég ætla að giska á að þetta hafi verið eitt­hvað svo­leiðis. Af hverju myndi hún annars ekki bara biðja fyrir mér í friði?“ segir hann.

Arnar er með afar sjald­gæfan húð­sjúk­dóm (e. Con­geni­tal icht­hyosi­form eryt­hroderma) sem lýsir sér þannig að hann er með afar þurra húð og fær út­brot. Að­spurður segist hann vera nokkuð vanur því að lenda í ein­hvers­konar að­kasti vegna sjúk­dómsins.

Spurður hvort hann hefði lent í sýru­baði

„Ég er svo­lítið vanur því. Það er mikið horft á mann þegar maður er slæmur. Ég er mjög slæmur núna því ég er að prófa ný krem,“ segir Arnar. Hann rifjar það upp þegar hann var eitt sinn að af­greiða mann í Elko.

„Svo heyrist bara í honum: „Hvað kom eigin­lega fyrir and­litið á þér? Lentirðu í sýru­baði?“ segir Arnar. Hann segist ekki hafa vitað hvernig hann hafi átt að bregðast við en eðli­lega orðið sár­móðgaður.

Arnar hefur verið opin­skár með sjúk­dóminn á sam­fé­lags­miðlum. Hann tekur bæði lyf og notar krem. „Ég hef reynt að vera opin­skár með þetta. Við erum nokkur á Ís­landi með þetta, en ekki öll sömu týpu,“ segir Arnar.

„Svo er það alltaf pirrandi þegar ó­kunnugt fólk með heil­brigða húð heldur því fram að á­kveðið krem muni bara lækna mann. Við höfum talað mikið um það á milli okkar, við sem erum með sjúk­dóminn,“ segir Arnar. Veður­far hafi mikil á­hrif á húðina, hann hafi verið sér­stak­lega slæmur upp á síð­kastið þegar svo þurrt er í veðri.

Meyr yfir við­brögðunum

Arnar fékk mikil við­brögð á sam­fé­lags­miðlinum við færslu sinni þar sem not­endur þökkuðu Arnari fyrir að deila sögu sinni. Hann segist meyr yfir við­brögðunum, hann hafi verið tví­stígandi með það hvort hann ætti að birta færsluna.

„Ég hugsaði fyrst hvort ég væri ekki bara að gera allt of mikið úr þessu. En það var svo gott að fá þessi við­brögð sem rétt­lættu mínar til­finningar fyrir þessu,“ segir Arnar.

Hann segist upp­lifa Ís­lendinga á Twitter ein­stak­lega stuðnings­ríka. „Ég kann virki­lega að meta fólkið.“