Kolbrún Baldursdóttir lýsti yfir furðu sinni á seinagangi í svörum þegar henni barst loksins svar við fyrirspurn sinni á fundi borgarráðs í vikunni, rúmum þremur árum eftir að hún lagði fyrirspurnina fram. Kolbrún segir þetta leið til að þagga niður viðkvæm mál.

Kolbrún lagði fram fyrirspurn um úthlutun fjármuna til grunnskóla Reykjavíkur á haustdögum 2019 og barst svar á síðasta fundi borgarráðs, þremur árum, tveimur mánuðum og tólf dögum síðar. Eðlilega er beðist afsökunar á því hvað málið tók langan tíma áður en rökstuðningurinn hefst.

Í kjölfarið lýsti Kolbrún yfir óánægju sinni í bókun. „Svarið nú eftir fjögur ár er bæði loðið og í raun útúrsnúningur. Skóla- og frístundasvið hélt utan um skjal með breytingum frá 2018 og óskum skólastjóra um viðbótarfjármagn. Flokkur fólksins óskaði eftir að fá að sjá þetta breytingaskjal skóla- og frístundasviðs og hvaða meðferð óskir skólastjóra fengu, hvaða óskir voru samþykktar og hverjum var hafnað. En það fékkst aldrei.“