„Mér fannst ég satt best að segja vera alveg að drepast, var mjög slæmur í maganum og staulaðist á salernið, en lenti svo bölvuðu basli með að komast aftur til baka inn í rúm.“ Þetta segir Eiríkur Brynjólfsson, sem fyrstur Íslendinga greindist með mislinga í þeim faraldri sem nú gengur yfir. Eiríkur er í viðtali í Mannlífi.

Þar kemur fram að hann hafi komið heim til Íslands eftir frí á Filippseyjum 14. febrúar. Hann flaug svo með Air Iceland Connect til Egilsstaða og smitaði í ferðinni nokkra farþega. 

Eiríkur segist hafa byrjað að finna fyrir slappleika þegar hann var á leiðinni heim en fyrstu einkenni hafi verið vindverkir. „Það var reyndar svona öllu meira en maður á venjast, en ég fann að ég var ekkert voðalega hress, án þess þó að vera eitthvað óskaplega veikur. Daginn eftir að ég kom til Íslands var ég þó orðinn enn slappari en grunaði ekki annað en að ég hefði náð mér í einhverja smáflensu, enda hafði ég heyrt að það væri ein slík í umferð.“ 

Næsta dag eftir að hann kom heim til Egilsstaða fór að bera á útbrotum á höndum en hann var þá orðinn ansi veikur. Útbrotin færðust í aukana og líðanin versnaði. „Ég var orðinn mjög máttlaus og með blússandi hita enda mældist ég með fjörutíu og eins stigs hita sem er víst ansi mikið fyrir fullorðinn mann.“ 

Fyrst héldu læknar að hann væri með lungabólgu enda var öndunin óvenjuleg. Í kjölfarið áttuðu læknarnir sig og hann var settur í einangrun. Svo var hann sendur suður með sjúkraflugi, þar sem hann lá í viku. Í viðtalinu segist Eiríkur ekki finna fyrir samviskubiti yfir því að hafa smitað aðra. Hann hafi talið að hann væri bólusettur fyrir mislingum, eins og flestir Íslendingar.