Jón er Reykvíkingur, fæddur árið 1964 og alinn upp í Hlíðahverfinu. Hann er einbirni, sonur hjónanna Þórs Jónssonar, bifvélavirkja, og Sigríðar Guðmannsdóttur, sjúkraliða, sem nú eru fallin frá. Jón er ættaður af Ströndum, Landsveit á Suðurlandi og Húnavatnssýslum en þangað var hann sendur í sveit sem piltur.

Eins og margir piltar í Hlíðunum æfði Jón handbolta og var samtíða mörgum af gullaldarleikmönnum íslenska landsliðsins, Geir Sveinssyni, Jakobi Sigurðssyni og fleirum. „Þetta var einstök kynslóð sem kom þarna upp, en það var ekki mér að þakka,“ segir Jón og brosir. „Ég hætti þegar mér sýndist ég ekki lengur efnilegur.“

Jón hætti þó ekki að hafa áhuga á íþróttum og alla tíð hefur hann fylgst með enska boltanum.

„Þegar ég var að byrja í leikfimi í Hlíðaskóla fór afi minn í Sportvöruverslun Ingólfs Óskarssonar og keypti handa mér íþróttatösku merkta Leeds United,“ segir Jón. „Þá var ekki aftur snúið og ég hef staðið með þeim í gegnum þykkt og þunnt.“

Ungur útibússtjóri

„Ég hóf minn feril sem bankamaður fljótlega eftir stúdentspróf frá MR. Það var hrein tilviljun eins og svo margt í lífinu,“ segir Jón. „Ég varð bankamaður í Iðnaðarbankanum haustið 1984 og náði því að fylgjast með hvernig bankaþjónusta þróaðist frá þátíð til nútíðar, meðal annars með tölvutækninni og breyttum viðhorfum. Ég á ánægjulegar minningar frá árunum í Lækjargötu 12, aðalbanka Iðnaðarbankans, en þar var ég í 7 ár eða þar til ég varð útibússtjóri bankans, sem þá var orðinn Íslandsbanki, við Gullinbrú, 29 ára. Það þótti ungt og þykir sjálfsagt enn.

Síðar varð Jón framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka og stýrði sölusviði, útibúasviði og viðskiptasviði. Þegar hann hætti eftir rúmlega 20 ára starf var hann aðstoðarforstjóri með ábyrgð á allri innlendri starfsemi.

Jón segir að ómetanlegt hafi verið fyrir ungan mann að finna að honum var treyst fyrir vaxandi ábyrgð og auknum skyldum. Að hans mati skipti miklu að rísa undir því trausti sem sýnt er.

„Það er mitt lán að hafa á ferlinum lent í vist hjá góðu fólki. Það er gömul saga og ný að það getur ráðið úrslitum um hvort vel tekst til eða ekki, að vinna með góðu fólki. Þau verkefni sem ég hef fengist við hafa verið þess eðlis að til að vel takist til, þarf samstillt átak margra. Þetta er ekki einleikur á sviði. Ég hef á ferli mínum verið heppinn með samstarfsfólk,“ segir Jón.

Fall VBS reynsla sem skerpti sýnina

Eftir árin í Íslandsbanka tóku ráðgjafastörf við þar til hann hóf störf hjá VBS fjárfestingarbanka, sem var lítill sérhæfður fjárfestingarbanki sem sérhæfði sig aðallega í verkefnafjármögnun og eignastýringu.

„VBS hlaut síðar sambærileg örlög og fjöldi annarra fjármálafyrirtækja, og fyrirtækja almennt, í kjölfar bankahrunsins. Reyndar var það vorið 2010, nokkru seinna en stóru bankarnir féllu,“ segir Jón. „Ég var meðal hluthafa bankans og komst ekki sigri hrósandi frá þeirri niðurstöðu, öðru nær. Fjárhagsleg skakkaföll af því tagi eru ekki léttvæg. En þó ekki sé bannað að tapa peningum, þá er það leiðinlegt. En í sambærilegum aðstæðum lentu tugir þúsunda landsmanna og mér er ekki vandara um en öðrum í þeim efnum. Nú er það að baki og allt er þetta reynsla sem á þátt sinn í því að móta mann og skerpa sýnina á það sem skiptir máli.“

Jón segir að ekki hafi streymt til hans atvinnutilboð í kjölfar falls fjárfestingarbankans. „Það var engin sérstök eftirspurn eftir mér á vinnumarkaði á árunum sem fylgdu í kjölfarið, en ég vann sjálfstætt sem ráðgjafi við ýmis verkefni, á sviði stefnumótunar og stjórnunar og því um líkt.“

Á þessum tíma hafði Jón áhyggjur af því að hann væri að sóa tíma sínum og hugurinn hafi stefnt að því að gera eitthvað uppbyggilegt.

jónþórisson037.jpg

Á skólabekk með unga fólkinu

„Haustið 2013 afréð ég að láta gamlan draum minn rætast og settist á meðal rúmlega 300 nýnema á fyrsta ári í lagadeild Háskóla Íslands. Fljótlega kvarnaðist úr hópnum eins og búast mátti við og við námslok vorum við líklega rúmlega 40.“

Margir samnemendur Jóns í lagadeildinni voru umtalsvert yngri en hann. „Langflest þeirra voru að koma beint úr menntaskóla og tæknilega gat ég verið faðir þeirra, svona frá aldurssjónarmiði. En þau létu mig aldrei finna fyrir því og ég átti gott með að vinna með þeim að þeim verkefnum sem leysa þurfti í hópum, og fyrir kom að ég var dreginn með í félagslíf í deildinni. Mér var því mjög vel tekið af þessu unga fólki.“

Hann segir að sér hafi gefist vel að líta ekki á upphaf námsins eins og fimm ára nám væri að hefjast, heldur líta á fyrsta árið sem afmarkað verkefni.

„Upphaflega var hugmyndin að sjá hvernig glíman við hina alræmdu almennu lögfræði tækist, lengra horfði ég ekki, enda þá 49 ára gamall og ekki auðséð að vit væri að leggja í fimm ára háskólanám, alla vega svona í upphafi. En þetta hafðist og þá var teningunum kastað.

Jón lauk svo meistaraprófi í lögfræði vorið 2018 eftir fimm ára nám. „Þetta var skemmtilegur tími og ekki laust við að ég sakni hans. Úr náminu á ég góða félaga og ég vona að sú vinátta haldist og þó aldursmunurinn sé vissulega nokkur í árum, þá minnkar hann alltaf hlutfallslega með hverju árinu,“ segir hann.

Jón telur ekki sé víst að nemendur við háskóla átti sig á hve mikil forréttindi það eru að geta stundað nám á sínu áhugasviði.

„Það er þakkarverð sú aðstaða sem nemendum er almennt búin. Aðgangur að bestu fáanlegu þekkingu á hverju sviði og aðbúnaður allur er þannig að það er ómetanlegt. Vissulega er mismunandi milli háskóla hversu mikinn þátt nemendur taka í kostnaði við námið, en það er þó sáralítill hluti á móti þeim kostnaði sem mætt er af skattfé. Þannig er það skylda þeirra sem þessa njóta að reyna að skila því til baka í einhverju formi, svo sem að gera sitt til að verða nýtir þjóðfélagsþegnar og skattgreiðendur. Allt að einu treystum við því að þessu fé sé vel varið og margir leggja mikið á sig til að afla sér menntunar.“

Fékk fréttabakteríuna

Aðspurður um innkomu hans í fjölmiðla segist Jón hafa fengið fréttabakteríuna seint. Hann hafi þó alist upp á heimili þar sem alltaf var fylgst með fréttum, bæði í sjónvarpi og dagblöðum, og einnig rætt um fréttirnar.

„Ég var svo lánsamur að Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, tók mér vel þegar ég viðraði við hann þá hugmynd að ég kæmi til starfa á ritstjórn blaðsins sem sumarmaður þegar ég var í laganáminu. Við gengum frá ráðningunni á fyrsta fundi. Það reyndist mér farsællega og blaðamennskan er eitt það skemmtilegasta sem ég hef fengist við. Ég skrifaði viðskiptafréttir í ViðskiptaMoggann og naut mín vel,“ segir Jón.

Jón gekk einnig fréttavaktir og skrifaði almennar fréttir í blaðið. Samtals starfaði hann hjá Morgunblaðinu í ríflega eitt og háflt ár. Eftir þann tíma skrifaði hann reglulega greinar um lögfræði fyrir blaðið.

„Á Mogganum lærði ég mikið, til dæmis að skrifa í hið knappa form. Ég hef gaman að tungumálinu og les mikið af efni þar sem er vel farið með málið, svo sem ævisögur. Ég vil skrifa texta sem er auðskilinn en jafn framt metnaður í því hvernig hann er borinn fram, án þess að vera stafsetningarlögregla.“

jónþórisson034.jpg

Lögfræðin er allt um lykjandi

Jón hefur frá því náminu lauk verið einn aðstandenda Dranga lögmanna. En nú segir hann nýjan kafla taka við.

„Ég stefndi alltaf á praxís eftir að námi lauk og taldi að reynsla mín frá árum áður myndi nýtast mér í þeim efnum, auk nýfenginnar þekkingar á lögfræði. Ég held að mér sé óhætt að segja að sú hafi reynst raunin.“

Jón segir að þrátt fyrir brennandi áhuga á lögfræði hafi verið erfitt að láta tækifærið að starfa á Fréttablaðinu fram hjá sér fara.

„Þetta átti sér mjög skamman aðdraganda. Ég þurfti svo sem ekki að hugsa mig lengi um og hlakka til að hefja störf. Það sem kom mér mest á óvart, þegar ég fyrst hóf störf á Mogganum forðum, var hversu mörg handtök þarf til að koma út einu tölublaði eða til að frétt birtist á netmiðli. Til að blað eins og Fréttablaðið komi út eða vefurinn frettabladid.is sé uppfærður þarf nefnilega ótal handtök, lipurð, færni, fórnir og ekki síst ánægju. Allir þurfa að leggjast á eitt og þetta gerist alls ekki af sjálfu sér. Til þess þarf samstillt átak.“

Þó að hann sé tekinn við stöðu ritstjóra segist hann ekki vera að yfirgefa lögfræðina sem slíka.

„Ef til vill hugsa einhverjir hvernig standi á að ég yfirgefi lögfræðina sem minn vettvang, þar sem ég hef lagt á mig á gamals aldri að læra, en ég er ekki að því. Lögfræðin er allt um lykjandi, ekki síst í fjölmiðlum, enda fjallar lögfræðin í kjarna sínum um fólk og samskipti þess,“ segir Jón. „Það er heldur ekki þannig að ég sé að æviráða mig í ritstjórastól og sé fyrir mér að snúa til baka í lögfræðistörf síðar. En verkefnin sem eru framundan á vettvangi Fréttablaðsins eru svo spennandi að þau get ég ekki látið vera.“

Miðlar ekki til án lesenda

Jón segir áhuga á fólki vera lykil sinn að starfsánægju.

„Það sem mér finnst mest spennandi við starf á ritstjórn Fréttablaðsins er fólk. Ekki bara það góða fólk sem þar starfar, heldur jafnframt sá fjöldi lesenda sem treystir á blaðið og miðla þess að veita því upplýsingar sem skiptir það máli, hvort sem er á sviði stjórnmála, viðskipta, íþrótta, alþjóðamála, menningar og svo framvegis. Það hlutverk tek ég alvarlega og vil leggja mitt af mörkum til að við náum að rísa undir því trausti sem okkur er sýnt,“ segir Jón í ljósi þess að Fréttablaðið sé borið endurgjaldslaust og óumbeðið inn á heimili fólks. Mikilvægt sé að í blaðinu sé efni sem fólk vill lesa.

„Auðvitað geta menn ákveðið að lesa ekki blaðið eða fara ekki inn á fréttavefinn frettablaðið.is og í þeim efnum ekki ólíkt öðrum störfum sem ég hef sinnt. Fólk getur ákveðið að beina viðskiptum sínum frá einum banka til annars, eða leita annað með lögfræðiráðgjöf. Allt að einu er nauðsynlegt að átta sig á að miðlar á borð við þá sem haldið er úti á vegum Fréttablaðsins væru ekki til án lesenda. Það er kjarni máls.“

Alæta á tónlist og ástríðukokkur

Jón er fráskilinn og á 23 ára gamla dóttur. Búa þau feðginin í Kársneshverfinu í Kópavogi en hún hefur lagt myndlistina fyrir sig og er í óða önn við að undirbúa sýningar. „Mér finnst ólíklegt úr þessu að hún feti sömu slóð og ég,“ segir Jón.

Aðspurður um áhugamálin segist Jón hlusta mikið á tónlist og sé alæta á stefnur. Hann fer hins vegar ekki oft á tónleika. „Ég þarf að heyra tónlistina eins og ég kynntist henni og ef einhverju er breytt getur það farið í taugarnar á mér,“ segir Jón og brosir. „Ég hef einnig mikinn áhuga á eldamennsku, bæði að búa matinn til og njóta hans. Ég prófa mig áfram með alls kyns hráefni og krydd en hef einnig gaman að því að búa til mat sem ég vandist úr æskunni. Það er fátt jafn afslappandi að afloknum degi að útbúa góðan mat, og helst fyrir einhvern sem kann að meta hann.“