Landsréttur dæmdi í dag karlmann í eins árs fangelsi og til greiðslu miskabóta fyrir ósiðlegt athæfi gagnvart sex drengjum á árunum 2019 og 2020.
Manninum var gert að sök að hafa staðið nakinn við glugga á heimili sínu á jarðhæð og snert kynfæri sín á meðan hann fylgdist með drengjum leika sér fyrir utan. Málið snerist um nokkur tilvik þar sem drengir lýstu því að hafa orðið varir við háttsemi af þessu tagi.
Maðurinn er dæmdur annars vegar fyrir brot gegn 219 gr. almennra hegningarlaga, sem kveður á um að hver sem með lostugu athæfi særi blygðunarsemi manna eða sé til opinbers hneykslis skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum. Hins vegar er hann dæmdur fyrir brot gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, sem kveður á um að hver sem sýni barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særi það eða móðgi skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Auk fangelsisvistarinnar verður maðurinn að greiða fimm drengjanna miskabætur upp á 250.000 krónur og hinum sjötta 350.000 krónur.
Hljóð- og myndbandsupptökur voru spilaðar fyrir Landsrétt við meðferð málsins og dómarar komust að þeirri niðurstöðu að ekkert hefði komið fram sem drægi úr trúverðugleika frásagnar drengjanna.