„Ég tók þessa ákvörðun bæði sem fjárfestir og líka sem áhugamaður um fjölmiðla,“ segir Helgi Magnússon fjárfestir.

Félag á vegum Helga hefur keypt helming hlutafjár í Torgi ehf. sem á og rekur Fréttablaðið, frettabladid.is, markadurinn.is, tímaritið Glamour og tengda starfsemi.

„Síðan ég og meðeigendur seldum málningarfyrirtækið Hörpu-Sjöfn fyrir 15 árum hef ég verið að sinna fjárfestingum, bæði í skráðum og óskráðum félögum. Þegar maður fæst við slíkt í langan tíma þá hefur maður augun opin og skoðar öll tækifæri sem upp kunna að koma,“ segir Helgi. „Þessi möguleiki bauðst mér fyrir tilviljun. Eftir að hafa skoðað málið vandlega þá taldi ég áhugavert að eignast hlut í Torgi.“

Helgi segir tilganginn ekki annan en að taka þátt í að styrkja grunnstoðir blaðsins og gera gott blað og fyrirtæki enn betra.

„Ég hlakka til samstarfs við öfluga starfsmenn og eigendur. Þetta er hópur með mikla reynslu af útgáfustarfsemi og blaðamennsku. Fréttablaðið er langútbreiddasta dagblað landsins, sem er prentað í 80 þúsund eintökum á hverjum degi, sex daga vikunnar. Torg er þar af leiðandi eitt allra mikilvægasta fjölmiðlafyrirtæki landsins. Ég veit að það eru ýmis áform uppi um að ná enn frekari árangri.“

Helgi hefur haft mikinn áhuga á fjölmiðlum frá því á skólaaldri. „Ég fékk snemma þessa bakteríu,“ segir Helgi. Ritstýrði hann skólablaði Verzlunarskólans og íhugaði á tímabili að fara í nám í blaðamennsku í Bandaríkjunum. „Síðan var ég ritstjóri Frjálsrar verslunar í fjögur ár, frá 1988 til 1992, á miklum umbrotatímum. Ég hafði mikla ánægju af því starfi og kynntist þá mjög mörgu áhugaverðu fólki. Ég er mjög forvitinn og fylgist alltaf vel með fjölmiðlum. Þetta er mjög heillandi atvinnugrein.“

Mikið hefur verið rætt um bága stöðu einkarekinna fjölmiðla á undanförnum árum. Helgi er þó bjartsýnn. „Það fer mikið eftir því hvernig staðið er að rekstrinum. Veldur hver á heldur. Ég er bjartsýnn á framhaldið hjá Fréttablaðinu og tengdum miðlum.“

Helgi gerir ráð fyrir að fleiri komi að eignarhaldi á þessum helmingshlut í Torgi en ekkert hefur verið ákveðið um það enn sem komið er. Ingibjörg S. Pálmadóttir verður stjórnarformaður Torgs og Helgi tekur sæti í stjórninni.

„Það er gríðarlega mikilvægt að hér á landi séu starfandi öflugir, frjálsir og sjálfstæðir fjölmiðlar þannig að tryggja megi öflug skoðanaskipti og vandaða fréttamennsku. Mér finnst það ekki áhugaverð framtíðarsýn fyrir okkar samfélag að allt of mikið af fjölmiðlun sé á vegum ríkisins í gegnum Ríkisútvarpið sem fjármagnað er af skattpeningum landsmanna.“