Samkynhneigður lögreglumaður frá Missouri vann í gær mál gegn vinnuveitanda sínum eftir að honum var sagt að „draga úr samkynhneigð“ sinni til að hljóta stöðuhækkun. Lögregluyfirvöldum var gert að greiða honum 19 milljónir Bandaríkjadollara í skaðabætur, eða tæpa tvo og hálfan milljarð íslenskra króna.

Eins og að vera kýldur í magann

Lögreglumaðurinn heitir Keith Wildhaber en hann höfðaði mál gegn lögreglunni í St Louis í Missouri árið 2017. Hann hélt því fram að yfirmenn hans hefðu sniðgengið sig í hvert einasta skipti sem stöðuhækkun var í boði, heil 23 skipti, vegna kynhneigðar sinnar.

Vitni í málinu sagði frá því þegar yfirmaður Wildhabers sagði hann vera „allt of opinn með samkynhneigð sína“. Í kærunni kemur þá fram að árið 2014 hafi lögreglustjóri nokkur, John Saracino, ráðlagt honum að „draga úr samkynhneigðinni“ til að hljóta stöðuhækkun. Saracino neitaði að hafa látið þau ummæli falla.

„Það var hörmulegt að heyra þessi orð,“ sagði Wildhaber í réttarsalnum og lýsti tilfinningunni svipaðri og að vera kýldur í magann. Eftir að hafa lagt inn formlega kvörtun vegna atviksins, hélt hann því þá fram, að hann hafi verið færður á kvöldvaktir á annarri lögreglustöð, sem er í lengri fjarlægð frá húsinu hans.

Dómurinn setji fordæmi

Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að Wildhaber hafi orðið fyrir mismunum vegna kynhneigðar sinnar og að honum hafi verið refsað fyrir að leggja inn kvörtun vegna málsins. Lögregluyfirvöldum var gert að greiða honum um 19 milljónir dollara í skaðabætur vegna málsins, um 2,3 milljarða íslenskra króna.

„Við vildum senda skýr skilaboð,“ sagði einn kviðdómaranna í samtali við erlenda fjölmiðla. „Ef þú mismunar fólki á grundvelli sem þessum, þá þarftu að bæta upp fyrir það með háum bótum... Þú getur ekki varið svona hegðun.“

Þá hafa yfirvöld gefið út yfirlýsingu þar sem breytingar eru boðaðar hjá lögregludeild fylkisins. Tími sé nú kominn til að skipta út fólki í stjórnunarstöðum.