Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Gunnars Sigurjónssonar fyrrverandi prests í Digranesi, segist hafa kvartað til umboðsmanns Alþingis yfir hæfi Agnesar M. Sigurðardóttur biskups.

„Hún sé vanhæf vegna þess hvernig hún hefur komið fram í málinu og hvað hún hefur sagt í fjölmiðlum,“ segir Auður. Málið hafi ekki farið í rétt ferli í upphafi af hálfu biskups. Einnig sé kvartað yfir vinnu óháða teymis þjóðkirkjunnar í málinu.

„Sönnunarmatið í vinnu teymisins var kolrangt og á skjön við reglur einkamála- og sakamálaréttarfars og er málsmeðferðin þar að mörgu leyti brot gegn stjórnsýslulögum.“

Gunnar var sóknarprestur við Digranes- og Hjallaprestakall en var sendur í leyfi vegna ásakana sex kvenna um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti innan kirkjunnar í desember 2021 á meðan óháða teymi þjóðkirkjunnar var með mál hans til skoðunar. Leyfið var framlengt í að minnsta kosti þrígang og rann síðast út 1. september síðastliðinn.

Biskupsstofa greindi frá því síðar í sama mánuði að teymið teldi Gunnar hafa gerst brotlegan við reglur kirkjunnar tíu sinnum og myndu ekki snúa aftur. Áformað væri að gefa honum skriflega áminningu. Síðan þá hefur þó lítið gerst í máli Gunnars, sem er æviskipaður og enn á launum.

„Hann er í algjörri óvissu,“ segir Auður. „Honum verður ekkert sagt upp nema í samræmi við lög og reglur. Ákvörðun um það hefur aldrei verið birt honum, hann fékk að vita það í fjölmiðlum að hann væri ekki lengur sóknarprestur.“

Dregur umboð biskupsins í efa

Drífa Hjartardóttir, forseti Kirkjuþings, staðfestir að kvörtun hafi borist frá Auði þar sem lagalegt umboð Agnesar sem biskups Íslands er dregið í efa og að kvörtunin verði skoðuð.

Morgunblaðið sagði frá því í gær að í erindi Auðar til Drífu kæmi fram að Agnes hefði verið skipuð í embætti biskups af forseta Íslands til fimm ára 2012. Í lok þess skipunartíma hefði tíminn framlengst sjálfkrafa í önnur fimm ár, til loka júní 2022. Frá þeim tíma hefði hún ekki verið endurkjörin og skorti því lagalegt umboð til að gegna embættinu.

Drífa hyggst boða forsætisnefnd til fundar í dag eða á morgun vegna málsins og segir að lögmaður verði fenginn til að skoða málið.

Pétur G. Markan biskupsritari vildi ekki tjá sig um málið í gær.