Dóm­stóll í Connecticut í Banda­ríkjunum hefur dæmt Richard Dabate, 46 ára karl­mann, í 65 ára fangelsi fyrir morð á eigin­konu sinni. Segja má að Fit­bit-úr sem eigin­kona hans, Conni­e Dabate, bar á sér þennan ör­laga­ríka dag í desember 2015 hafi spilað veiga­mikið hlut­verk í sak­fellingunni.

Richard var sak­felldur í maí síðast­liðnum og var refsing á­kvörðuð í gær. Hann hélt því sjálfur fram að inn­brots­þjófur hefði skotið eigin­konu hans til bana. Sagðist hann hafa farið til vinnu um­ræddan morgun en snúið aftur heim um 9 leytið til að sækja far­­tölvu sem hann gleymdi.

Þegar þangað var komið hafi hann mætt inn­brots­­þjófi á heimilinu og sá hafi skotið eigin­­konu hans til bana áður en hann flúði af vett­vangi.

Upp­­­lýsingar úr Fit­bit-úri sem eigin­­kona hans, Conni­e Dabate, var með á sér sögðu þó aðra sögu. Sam­­kvæmt þeim tók Conni­e sín síðustu skref klukku­­tíma eftir að inn­brots­­þjófurinn átti að hafa verið á vett­vangi, sam­­kvæmt frá­­sögn Richards. Þá hafi ekkert bent til þess að Conni­e væri að flýja undan inn­brots­­þjóf eða verið í á­tökum af ein­hverju tagi.

Sak­­sóknarar héldu því fram að Richard hefði myrt eigin­­konu sína og svið­­sett inn­brotið. Þetta hafi hann gert í ljósi þess að hann átti von á barni með annarri konu og vildi hefja nýtt líf með henni.