Héraðs­dómur lengdi dóm yfir karl­manni sem sak­felldur var fyrir að hafa slegið barns­móður sína um mánuð. Héraðs­dómur dæmdi hann í eins mánaðar fangelsi en lands­réttur stað­festi dóminn og lengdi hann í 60 daga. Auk þess var honum gert að greiða konunni bæði miska- og skaða­bætur.

Maðurinn sló barns­móður sína með þeim af­leiðingum að hún hlaut yfir­borðs­á­verka á höfði auk þess sem hann braut bíl­lykilinn hennar.

Brotin áttu sér stað á jóla­dag árið 2016 þegar konan kom til mannsins með son þeirra. Þegar hún kom varð hann reiður, þau deildu og hann elti hana út í bíl þar sem hann kýldi hana í and­litið og braut lykilinn að bílnum hennar. Þegar lög­regla kom á vett­vang var konan grátandi í bílnum sínum.

Maðurinn sagði að konan hafi komið fyrir­vara­laust með drenginn og að hann hafi ó­vart brotið lykilinn.

Bjóst ekki við drengnum en var glaður að sjá hann

Konan fór á bráða­mót­töku þar sem hún var skoðuð og fékk á­verka­vott­orð. Í greinar­gerð málsins er einnig vísað til annarra gagna sem litið var til svo sem sál­fræði­á­lits og vott­orð vinnu­veit­enda konunnar.

Maðurinn lýsir því að sonur hans og konunnar hafi átt að vera hjá honum á jóla­dag en hann hafi ekki búist við honum. Þegar drengurinn mætti ó­vænt hafi hann orðið glaður en viljað ræða við barns­móður sína og gengið út til að gera það. Á meðan var drengurinn á­fram inni. Þegar hann kom út var hún enn í bílnum en þegar hún ætlaði að aka burt teygði hann sig í lykilinn til að koma í veg fyrir að hún kæmist burt og við það brotnaði hann.

Maðurinn lýsti því að sam­band þeirra hafi um langa hríð verið erfitt.

Hægt er að lesa dóminn hér í heild sinni.