Lögregluþjónn sem sló mann með kylfu við handtöku þar til hann missti meðvitund fékk sekt upp á 100 þúsund krónur. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Fréttablaðið greindi frá málinu á forsíðufrétt sinni 6. nóvember í fyrra en þar lýstu þrír sjónarvottar hvernig karlmaður var ítrekað barinn í höfuðið með kylfu og svo barinn áfram liggjandi meðvitundarlaus í blóði sínu.

„Þetta var ógeðslegt, eins og í bíómynd.“
Mynd: Aðsend

„Þetta var ógeðslegt, eins og í bíómynd,“ sagði sjónarvottur og lýsti því hvernig einn lögregluþjónanna beitti piparúða á manninn og annar lögregluþjónn sló hann ítrekað í höfuðið með kylfu þar til hann rotaðist og féll í jörðina.

Málið var til rannsóknar hjá héraðssaksóknara sem felldi málið niður í fyrstu. Sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara sem staðfesti niðurfellingu að mestu leyti en felldi hana niður að því er varðaði það að kærði, lögregluþjónninn, hafi lokað kylfu sinni með því að ýta henni í bak kæranda. Þeim þætti var svo lokið með sektargerð upp á 100 þúsund krónur.

Kominn aftur til starfa

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í fyrradag heldur umræddur lögregluþjónn starfi sínu.

Margrét Kristín Pálsdóttir, yfirlögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að hann sé kominn aftur til starfa eftir að hafa verið í tímabundnu leyfi vegna málsins.

„Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu staðfestir að viðkomandi lögreglumaður er kominn aftur til starfa hjá lögreglu. Embættið mun að öðru leyti ekki tjá sig um málefni einstakra starfsmanna,“ segir Margrét í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.