Íslandsmeistaramótið í skeggvexti verður haldið í fyrsta skiptið á Gauknum þann 28. mars. Yfirumsjónarmaður keppninnar, Jón Baldur Bogason, segir tilvalið fyrir áhugasama að byrja strax að safna, snyrta og koma sér í samband við góðan bartskera.

Jón Baldur hefur tekið þátt í skeggvaxtarkeppnum á erlendri grundu síðan 2016 og er í dag handhafi fimmta fallegasta Verdi skeggs heims. Verdi skegg skilgreinist sem 10 sentimetrar að lengd frá neðri vör og krullað yfirvaraskegg. Eftir að hann fann fyrir áhuga hér heima ákvað hann að koma keppninni á laggirnar og stofna félagsskap, Skeggfjelag Reykjavíkur og nágrennis.

„Mér var bent á að líkja þessu ekki saman við hundasýningu, en þetta er samt pínu svoleiðis,“ segir Jón Baldur og brosir breitt. „Keppendur stíga á sviðið og ganga fram hjá dómurunum. Það er meira gaman en alvara að baki þessu. Þetta snýst um að koma saman, skemmta sér og safna pening fyrir gott málefni.“

Ágóðinn rennur til Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur.

Keppt verður í fjórum flokkum, það er í fullu skeggi, yfirvaraskeggi, hálfskeggi og gerviskeggi. En seinasti flokkurinn er til þess að allir geti verið með, konur og taðskegglingar líka. Jón Baldur segir að erlendis keppi konur oft með skegg gerðu úr gervihári, hári eða hverju sem er.

„Í síðustu keppni sem ég fór á í Ameríku vann kona með skegg sem gert var úr tönnum,“ segir Jón Baldur. „Ég þorði ekki að spyrja hvort þetta væru alvöru mennskar tennur.“

Í amerískum keppnum er að stórum hluta horft til skegglengdar, en í þeirri íslensku verður frekar horft til heildarmyndarinnar. Jón Baldur segir að skegglengd geti vissulega skipt máli en einnig þykktin og hvernig skeggið fer manneskjunni.

„Skeggin eru öll trimmuð,“ segir Jón Baldur aðspurður um hvort hægt sé að mæta úfinn eins og jólasveinn. „Keppendur eru vel undirbúnir og með hárblásarann til taks. Það skiptir miklu máli að nota réttar vörur, sérstakt skeggsjampó og olíur.“ Gott sé að leita til rakara fyrir keppni til að láta snyrta skeggið.

Í dómnefnd situr úrvalslið sérfræðinga, Árni og Auður hjá Hárbeitt, Ólafur Örn Ólafsson, stjörnukokkur og dansari, Siggeir Fannar Ævarsson, sagnfræðingur og sérfræðingur í íslenskri skeggtískusögu, og Katla Einarsdóttir förðunarfræðingur. Verðlaunin verða skeggtengdar vörur.

Hægt er að skrá sig í keppnina á síðunni beard.is og gjaldið er 1.500 krónur.