„Það er mjög ánægjulegt að þessi lausn sé komin. Þetta er stór stund og fallegt fyrir staðinn og tryggði um leið framtíð safnsins á þessum fallega degi,“ segir Páll Guðmundsson, eftir að samkomulag var undirritað sem tryggir framtíð legsteinasafns hans í Húsafelli. .

„Safnið fær að halda áfram og við getum haldið áfram að vinna að því að koma legsteinum þarna inn og gera það fallegt,“ segir Páll.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri í Borgarbyggð, segist fegin að tekist hafi að semja í tæka tíð.

„Málið hefur snúist um mjög afmarkaðan þátt undanfarin ár og í viðræðum á miðvikudag var komist að því að það væru forsendur til frekari sáttaumleitana sem sveitarfélagið hefur haft aðkomu að. Við hittumst á fundi og fórum yfir þau atriði sem stóðu út af. Þetta var erfiður fundur en að lokum tókst okkur að finna farsæla lausn til framtíðar sem allir aðilar málsins gátu sætt sig við,“ segir Þórdís, aðspurð hver aðkoma sveitarfélagsins var að málinu.

„Það var enginn sem vildi að safnið yrði rifið, heldur að það yrði farsæl framtíðarlausn á þessu deilumáli,“ undirstrikar sveitarstjóri Borgarbyggðar.