„Við höfum fundið fyrir þessu mjög lengi, eflaust í einhverja mánuði,“ segir íbúi í Smáíbúðahverfinu sem orðið hefur var við dularfulla dynki og hristing heima hjá sér á kvöldin.

Hann ákvað að taka stöðuna á nágrönnunum og setja fyrirspurn um málið í hverfisgrúbbu á Facebook fyrir íbúa sem búa í póstnúmeri 108:

Við heyrum og finnum ansi oft mikla dynki og hristing, sér í lagi á kvöldin. Þetta gerist nokkrum sinnum á kvöldi og nokkrum sinnum í viku. Nú er spurt, eru fleiri sem eru að heyra og finna svipað?,

Svona hljóðar spurning hans í grúbbunni og viðbrögðin láta ekki á sér standa:

„Ég hélt að ég væri að verða geðveik því ég er að finna reglulegan örtitring heima hjá mér, er efst í einni Sólheimablokkinni og finn þar af leiðandi mjög vel fyrir öllum jarðhræringum og sprengingum í nágrenninu,“ svarar einn nágranna mannsins strax.

Hún segist hafa verið á jarðskjálftavaktinni vegna málsins. Þar er hins vegar allt með kyrrum kjörum.

Fréttablaðið sló á þráðinn til konunnar í Sólheimablokkinni:

„Ég heyri nú enga dynki og ég treysti mér ekki til að segja hvort að þetta sé raunverulegt eða ekki,“ segir hún.

Allir á skjálftavaktinni

Hún er sjúklingur og hefur verið rúmföst en býr einnig hátt uppi og þá magnast allt svona lagað upp, segir hún minnug jarðskjálftahrinunnar í byrjun síðasta árs.

„Ég veit ekki hvað er í gangi en ég hef á tilfinningunni að við gætum verið að finna fyrir byggingarframkvæmdum,“ segir hún og bætir við: „Ég er ekki orðin geðveik, það er eitthvað í gangi.“

Mun fleiri nágrannar hafa lagt orð í belg á þræðinum í hverfisgrúbbunni og virðast  margir vera að finna fyrir þessu.

Fólk sem býr í Ásgarði og í Básenda segjast finna eitthvað svipað og íbúi á Tunguvegi fyrir neðan Sogaveg segist finna oft fyrir þessu.

„Mikið er ég fegin að það séu fleiri sem finna þetta,“ segir hún.

Önnur kona sem býr í sömu götu tekur í sama streng. Hún segist einnig fylgjast náið með jarðskjálftamælum veðurstofunnar.

Einn þátttakenda í umræðunni spyr hvort tíminn kunni að vera klukkan hálf þrjú og hálf sex og hvort kunni að vera sprengingar frá Landspítalanum  séu að trufla íbúa með þessum hætti.

Þá segist íbúi í Fellsmúlanum að heimilisfólk finni fyrir hræringum með léttum höggum inn á milli síðustu daga og vikur.

„Ég var á Dalbraut i fyrrakvöld um 19.30 kom hristingur og glumdi aðeins i lyftunni, ég hélt að þetta væri jarðskjálfti,“ segir ein.

„Finn ekki fyrir titring en furða mig oft á þessum dynkjum“ segir íbúi í Efstalandi. Hún segir þetta ekkert síður gerast á daginn en kvöldin.

Hélt fyrst að nágrannar væru að hoppa

Þótt margir hafi lagt orð í belg segist upphafsmaður umræðunnar enn engu nær um dynkina dularfullu.

„Ég veit ekkert hvaðan þetta kemur, en ég tek mest eftir þessu á kvöldin, líka út af því að þá er maður heima,“ segir hann. Af umræðunni sé hins vegar ljóst að margir eru að finna fyrir þessu á daginn líka.

„Ég hef nú oft ályktað sem svo að þetta séu bara nágrannarnir að hoppa eða eitthvað en þetta gerist einum of oft til að það geti verið málið. Þess vegna spurði ég á Facebook og þá kemur þetta í ljós," segir hann og vísar til þess hve margir kannast við hljóðin og titringinn.