„Við erum voða ró­leg yfir þessu, þetta eru allt dauðir hlutir sem brotnuðu. Maður er bara fegin að kötturinn var ekki heima,“ segir Elín Ingólfs­dóttir, íbúi Grinda­víkur­bæjar, en við henni blasti vægast sagt ó­fögur sjón þegar hún opnaði úti­dyra­hurðina heima hjá sér eftir vel heppnað ferða­lag um verslunar­manna­helgina.

„Það voru allar skúffur opnar og rosa­lega mikið brotið. Myndir, kerta­stjakar, speglar, styttur, glös, lampar… það var allt út um allt,“ segir Elín, og bætir við að hún hafi þó verið búin að búa sig undir það að þetta gæti gerst.

„Við tökum þessu bara með stökustu ró. Þetta er bara eitt­hvað sem maður ræður ekki við og því erum við ekkert að stressa okkur,“ segir Elín og hlær.

Elín segir að­komuna þó hafa komið á ó­vart, sér­stak­lega þar sem staðan hefði verið allt önnur í fyrra þegar eld­gosið í Geldinga­dölum hófst.

„Þá hreyfðist ekkert hjá okkur, en það opnuðust tvær skúffur. Myndir skekktust ekki og ekkert datt úr hillunum. Þannig ég hugsaði með mér að þetta yrði ekkert rosa­legt um­horfs þegar við komum heim. En svo var bara allt út um allt,“ segir Elín.

Elín segist slegin yfir því að vita til þess að gamla gossvæðið við Geldinga­dali sé opið gestum og gangandi, en þau hjónin hafi keyrt þar fram hjá á leið sinni inn í bæinn.

„Það kom okkur hjónunum rosa­lega á ó­vart að svæðið sé opið. Það var þó­nokkur fjöldi þegar við keyrðum fram hjá. Ef það færi að gjósa, þá veit maður ekkert hvaðan það kemur. Það voru engar björgunar­sveitir eða við­bragðs­aðilar sýni­legir á svæðinu. Og mögu­lega veit þetta fólk sem er þarna ekki neitt um hvað er að gerast,“ segir Elín.

Elín segir tjónið ekki verulegt. Þetta hafi mikið til verið myndarammar, kertastjakar, speglar, styttur, glös og lampar sem hafi brotnað.
Fréttablaðið/Eyþór