„Ég er í fimmta og sjötta sæti með mínar tvær bækur og hún Ísabella mín var að gefa út sína fyrstu bók enda aðeins 11 ára. Hún er líka á topp 10 listanum,“ segir Huginn Þór Grétarsson, ritstjóri útgáfufélagsins Óðinsauga ásamt því að vera rithöfundur sjálfur.


Bók Ísabellu, Slím, fjallar um og birtir uppskriftir af slímum sem hafa verið einstaklega vinsæl meðal ungmenna að undanförnu. Bókin læddist í tíunda sæti í flokki fræði- og handbókalista barna og ungmenna fyrir vikuna en bækur Hugins, 13 þrautir jólasveinanna: Óþekktarormar og Brandarar og gátur 3 sitja sem fyrr segir í fimmta og sjötta sæti.

Stórstjörnurnar Steindi, Vísinda-Villi og Gummi Ben eru í fyrstu þremur sætunum. Huginn hefur skrifað barnabækur í rúman áratug og segir að Ísabella, sem er einnig í hand- og fótbolta, leiklist auk þess að gefa út bók, hafi greinilega smitast af sköpunarkraftinum sem fylgir bókabransanum.

„Hennar bók er uppseld á lager. Ég er í alveg meiriháttar vandræðum og maður er að hugsa um að setja hana í endurprentun,“ segir hann stoltur af dóttur sinni. „Það er rétt hægt að ímynda sér hvað maður er stoltur af þeirri stuttu.“

„Vinkvennahópurinn er á fullu í þessum slímbransa, skoða uppskriftir og fleira og ég held að hún hafi byrjað að skrifa á blað einhverjar uppskriftir. Áður var hún að spá í að gera boozt-bók með uppskriftum að góðum drykkjum. Slímið er svo ofboðslega vinsælt en hún er að fara með þetta aðeins lengra en venjulegur neytandi og hefur sökkt sér ofan í myndbönd og fleira. Við byrjuðum að vinna þetta saman og byrjuðum á eldhúsborðinu.Ég kom með í þetta ferðalag og horfði á hana taka þetta skref fyrir skref og hjálpaði henni að gera þetta með skipulögðum hætti. Hugsa hvernig væri hægt að byggja þetta upp. Ég stóð bara yfir henni meðan hún tók sín skref. Það eru skýrar leiðbeiningar sem eru í þessu og mér finnst þetta vel upp sett hjá henni.“