Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) kynnti í kvöld sáttatillögu þess efnis að íbúðakaupendur við Árskóga 1-3 fái niðurfelldan hluta af kostnaðarverði íbúða sinna. Forsvarsmenn félagsins segja ljóst að afdrifarík mistök hafi verið gerð við verðlagningu íbúðanna en vonast til að sátt muni nú nást í málinu.

Líkt og greint hefur verið frá voru íbúðakaupendur krafir um að aukagreiðslu eftir undirritun kaupsamninga vegna 401 milljón króna aukakostaðs við byggingu íbúðanna. FEB kveðst nú ætla að koma til móts við íbúa og greiða 149 milljónir sem mun dreifast á kaupendur.

Greiða rúmlega þriðjung minna

„Íbúðirnar verða nú seldar á 6,9% yfir gamla kaupsamningsverðinu í stað allt að 11% sem áður hafði verið kynnt,“ segir í tilkynningu frá frá stjórn FEB. Kaupendur munu þar með greiða 37 prósent minna en upphafleg krafa gerði ráð fyrir. „Forsenda félagsins hefur alltaf verið að selja íbúðirnar á kostnaðarverði en með sáttatillögunni er verið að afhenda íbúðir undir raunkostnaðarverði,“ segir stjórn félagsins.

Afdrifarík mistök

Byggingarnefnd félagsins hefur óskað eftir að stíga til hliðar vegna málsins. „Ljóst er að draga verður lærdóm af þeim afdrifaríku mistökum sem gerð voru í tengslum við verðlagningu og samninga vegna íbúðanna. Endurskoða þarf með hvaða hætti staðið er að framkvæmdum sem þessum,“ kemur fram í tilkynningunni þar sem kaupendur eru beðnir velvirðingar vegna mistakanna. Samkvæmt stjórninni verður rannsakað hvernig mistökin áttu sér stað.