Stjórn Félags eldri borgara hefur tilkynnt kaupendum tveggja íbúða í Árskógum, sem hafa höfðað mál á hendur félaginu, að félagið hyggist að óbreyttu nýta kauprétt sinn og leysa til sín íbúðir þeirra. Þetta var ákveðið á fundi stjórnarinnar í dag og kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Stjórnin hyggst þannig virkja sérstakt kaupréttarákvæði í lóðaleigusamningi sem kveðið er á um í kaupsamningum vegna íbúðanna í Árskógum. Þar segir að félagið geti leyst til sín íbúðirnar á sama verði og fram kemur í kaupsamningnum, að viðbættum verðbótum. Félagið leitaði sér utanaðkomandi lögfræðiálits og þar er tekið undir sjónarmið félagsins um að þessi leið sé fær.

„Að sjálfsögðu mun þessum tveimur aðilum, sem hafa höfðað mál, áfram bjóðast að kaupa á sama verði og aðrir, vilji þau það. Stjórnin samþykkti að veita þeim frest fram á miðjan dag á morgun til að taka sína ákvörðun,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður félagsins í tilkynningu.

Sigríður segir það smá bót í máli að enn fari íbúðirnar á verði sem er nokkuð minna en kostaði að reisa þær.

„Það er auðvitað ekki skemmtilegt, ef til þess kemur, að félagið þurfi að beita kauprétti sínum gagnvart þessu fólki og við viljum forðast það í lengstu lög. Hins vegar hefur félagið þennan rétt og kvaðir, eins og þessi, eru vel þekktar í húsum sem byggð eru fyrir afmarkaða hópa,“ heldur hún áfram. Hún segir þá að kaupendurnir sem hafi samþykkt sáttaboð félagsins, eða geri það síðar, fái sínar íbúðir afhentar. Þær verði keyptar á verði sem er nokkuð minna en kostaði að reisa þær og það sé smá bót í máli.

Hér má sjá greinargerð stjórnarinnar um ákvörðunina:

Stjórn félagsins hefur leitað allra leiða til að ná sáttum en það hefur ekki fyllilega dugað til. Þessi leið sem farið er ekki sársaukalaus fyrir kaupendur en hún er talin óhjákvæmileg í þeirri stöðu sem upp er komin í málefnum Árskóga. Stjórn félagsins telur sér skylt að leita allra leiða til að tryggja hagsmuni félagsins og viðskiptamanna þess, enda er slíkt forsenda greiðsluhæfi Félags eldri borgara og þess að félagsstarfið geti áfram þróast með eðlilegum hætti. Stjórnin telur sig ekki geta samþykkt kröfur einstakra íbúðakaupenda um að þeir fái íbúðir afhentar nú þegar án þess að samið verði um breytingar á greiðsluskilmálum eins og félagið hefur farið fram á.

Til að fyrirbyggja misskilning er mikilvægt að fram komi að félagið mun ekki nýta kauprétt gagnvart þeim sem undirritað hafa skilmálabreytingu við kaupsamning, enda hefur stjórn félagsins lýst því yfir að hún muni falla frá þessari kvöð þegar samið hefur verið um breytingu á kaupverði viðkomandi fasteignar.

Félagið hélt áfram að funda með kaupendum í dag. Þrír þeirra skrifuðu undir að reiða fram viðbótargreiðslu. Alls er þá búið að ræða við 51 af 65 kaupendum. 32 hafa samþykkt skilmálabreytinguna en tveir hafa leitað til dómstóla. Enn á eftir að ræða við 14 kaupendur.

Lokaúrræði til að ljúka málinu
Ákvörðun um nýtingu kaupréttarins er þáttur í aðgerðum stjórnar sem ætlað er að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins og hámarka verðmæti allra hlutaðeigandi. Er það mat stjórnar að ekki fáist betri niðurstaða í málið.

Þeir sem hafa þegar skrifað undir skilmálabreytingu eða gera það í framhaldinu halda áfram sínum íbúðum. Þeir njóta áfram afsláttarins sem búið var að gefa út að gefinn yrði af fullu kostnaðarverði íbúðanna.

Þá liggur fyrir að þinghald vegna fyrirliggjandi innsetningargerða verður miðvikudaginn 21. ágúst nk. þar sem lögmaður félagsins mun leggja fram greinargerð félagsins. Í greinargerðinni verður m.a. óskað þess að innsetningargerðum verði vísað frá þar sem gerðarbeiðandi eigi ekki, eftir nýtingu kaupréttarins, lögvarða hagsmuni af innsetningargerðinni. Telur stjórn því afar mikilvægt að kauprétturinn sé nýttur vegna þessara tveggja íbúða áður en þinghaldið fer fram.

Loks liggur fyrir að félagið er með staðfesta fjármögnun vegna þessara kaupa á grundvelli kaupréttarheimildar í lóðarleigusamningunum.

Nánar um kaupréttarákvæðið
Í kaupsamningi félagsins við kaupendur að íbúðum í Árskógum er tilgreind kvöð samkvæmt þinglýstu skjali nr. 411-B-009138/2016. Þetta skjal er lóðaleigusamningur milli FEB og Reykjavíkurborgar frá 10. ágúst 2016. Í kaupsamningnum er tekið fram að aðilar samningsins skrifi undir að þeir hafi kynnt sér efni skjalsins og geri engar athugasemdir við þá lýsingu sem þar kemur fram. Þá var afrit lóðarleigusamningsins hluti af fylgiskjölum með kaupsamningnum.

Í 1. gr. lóðarsamningsins eru m.a. svohljóðandi ákvæði:

„Á lóðinni Árskógar 1-3 eru einnig sérstakar kvaðir skv. úthlutunarbréfi dags. 1. apríl 2016. Kvaðir þessar eru áréttaðar í sérstakri yfirlýsingu sem undirrituð samhliða lóðarleigusamningi þessum. Kvaðirnar eru:


a. Kvöð um að íbúðir sem reistar verða á lóðinni skulu vera fyrir félagsmenn í félagi lóðarhafa.

...

b. Kvöð um að lóðarhafi skuli í 3 ár frá fyrstu íbúðarsölu hafa kauprétt að íbúðum í húsunum á framreiknuðu upphaflegu söluverði viðkomandi íbúðar, bundið við þróun neysluverðs til verðtryggingar.“

Framangreindar kvaðir eru áréttaðar enn frekar í fylgiskjölum kaupsamningsins, sem öll voru afhent og kynnt við gerð kaupsamningsins.