Félag eldri borgara hefur fengið frest þar til á næsta miðvikudag til þess að gera grein fyrir vörnum sínum í máli tveggja íbúðaeiganda sem krefjast þess að fá lykla sína afhenta að íbúðum í Árskógum í Seljahverfi. Málin voru þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og komust lögmenn að samkomulagi um vikufrest.
Eins og Fréttablaðið hefur greint frá hefur málið reynst mikið hitamál en íbúðaeigendir voru upphaflega krafðir um aukagreiðslu eftir undirritun kaupsamninga íbúðanna. Var það vegna aukakostnaðar sem nam 401 milljón við byggingu íbúðanna. Lagði FEB fram sáttatillögu í gær í kjölfarið.
Í héraðsdómi í morgun fullyrti lögmaður FEB, Daði Bjarnason, meðal annars að það væri ekki á valdi FEB að efna þar tilgerða kaupsamninga. Málið væri stærra og varðaði 63 aðra kaupsamninga en ekki einungis umræddar tvær íbúðir.
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir og Sigurður Kári Kristjánsson, lögmenn umræddra íbúðaeigenda, lögðu hins vegar áherslu á veika stöðu skjólstæðinga sinna sem búi meðal annars inni á öðrum á meðan þau bíða afhendingu sinnar eigin fasteignar að Árskógum.
Sigrún segir í samtali við Fréttablaðið að það hafi fátt komið sér á óvart við þingfestingu málsins í morgun.
„Það breyttist ekkert í þessari þingfestingu, að það eru engar varnir,“ segir hún. „Og þær varnir sem verið er að byggja á þarna, við teljum ekki að þær hafi áhrif á eðli málsins, sem er afhending eignanna. Það er í rauninni bara það einfalt,“ segir Sigrún.
„Við lítum svo á að þeim hafi verið skylt að afhenda þessar íbúðir, algjörlega óháð þessari umræðu um beiðni til kaupenda um að þeir greiði hærra verð. Sem er þá algjörlega háð vilja kaupendanna, því kaupsamningur er bindandi.“