Félag eldri borgara (FEB) hefur nýtt sér kauprétt sinn á íbúð hjónanna sem ekki samþykktu sáttatilboð félagsins. Fyrirtaka varð í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í máli hjóna gegn félaginu vegna íbúðarkaupa í Árskógum 1-3. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Nær allir samþykkt breytinguna

Eins og greint hefur verið frá krafði FEB kaupendur á íbúðum í Árskógum um að meðaltali sex milljóna króna hærra verð fyrir íbúðirnar en kveðið var á um í upprunalegum þinglýstum samningi. Þetta var gert vegna þess að framkvæmdin fór hátt í fjögur hundruð milljónir fram úr kostnaðaráætlun.

Í tilkynningunni segir að 49 kaupendur íbúða við Árskóga hafa nú lýst því yfir að þeir séu samþykkir tilboði FEB. 45 hafa þegar skrifað undir skilmálabreytingu þess efnis en fjórir til viðbótar, sem allir eiga það sameiginlegt að dvelja utan höfuðborgarsvæðisins, hyggjast gera sér ferð til að skrifa undir á næstunni.

Þá hafa allir nema tveir af þeim 33 sem voru með afhendingardag á íbúð í lok júlí samþykkt að greiða hækkað verð, en einn á eftir að skrifa undir. Enn á eftir ræða við 10 kaupendur, en að sögn félagsins hefur gengið illa að ná í suma þeirra.

„Eftir meðbyr síðustu daga er Félag eldri borgara orðið bjartsýnt á að nær allir samþykki aukagreiðsluna. Þá vonast stjórn félagsins til að dómari í máli kaupandans sem ekki hefur viljað samþykkja aukagreiðsluna, úrskurði félaginu í hag,“ segir í tilkynningunni.

Hafa leyst til sín íbúðina

„Félag eldri borgara vísar því alfarið á bug, sem fram hefur komið hjá lögmanni í fréttum, að félagið hafi sýnt af sér óbilgirni í samningaviðræðum við þá kaupendur tveggja íbúða í Árskógum, sem höfðað höfðu mál gegn félaginu. Félagið hefur þvert á móti lagt alla áherslu á að ljúka málinu með sátt, með þeim fyrirvara þó að sáttin feli ekki í sér óeðlilega mismunun á milli verðandi íbúa húsanna,“ segir þá í tilkynningunni.

FEB segir þá að báðir aðilar, sem félagið var í viðræðum við vegna innsetningarmála fyrir héraðsdómi, hafi fengið sams konar tilboð um sátt. Eins og hefur verið greint frá gekkst einn kaupandinn við tilboðinu og dró mál sitt til baka en öldruð hjón, sem ætluðu að kaupa hina íbúðina, ekki. Fyrirtaka í máli þeirra varð í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

FEB hefur nú nýtt sér kauprétt sinn á íbúð þeirra hjóna því þau samþykktu ekki sáttatilboðið. „Um er að ræða þrautarlausn til að varna því að málsókn kaupandans, nái hún fram að ganga, setji félagið í þrot. Aðgerð félagsins byggir á þeim sama kaupsamningi og deilt er um og er studd bæði óháðu lögfræðiáliti og fjölmörgum málsástæðum sem fram koma í greinargerð félagsins sem lögð var fram við fyrirtöku málsins í héraðsdómi í morgun,“ segir í tilkynningunni.

„Það hefði verið óskandi ef báðum þessum málum hefði lokið með samkomulagi en því miður var aðeins annar aðilinn tilbúinn til að fallast á sáttatilboð sem byggði á jafnræði þeirra beggja,“ segir þá en félagið vonast til að meðferð málsins taki skamman tíma og að óvissunni ljúki sem fyrst.